Enginn olíuleki úr Fjordvik í Helguvík

- Olíubrák vegna smurolíu úr vélarrúmi

Engin olía hefur lekið úr sementsflutnigaskipinu Fjordvik. Um 80 tonnum af eldsneyti hefur verið dælt úr tönkum skipsins. Restin, rúm 20 tonn, er í tönkum sem björgunarmenn hafa ekki komist að. Könnun á skipinu bendir til þess að engin olía hafi lekið úr skipinu.
 
Olíubrák sem sést hefur á sjónum við skipið er af smurolíu úr vélarrými skipsins en göt eru á skrokki Fjordvik og hefur sjór komist bæði í vélarrýmið og lestar.
 
Kafarar könnuðu skrokk sementsflutningaskipsins í gær. Nú er verið að fara yfir myndefni sem þeir tóku og teikna upp skipið með tilliti til skemmda.
 
Í morgun komu öflugar dælur með flugi til landsins. Þær verða fluttar til Helguvíkur en menn hafa fengið heimild til að gera tilraunir með dælingu úr skipinu. Þær eiga að meta hversu hratt lekur inn um göt á skrokki skipsins.

 
Veðurhorfur eru ekki góðar fyrir daginn. Það fór að hvessa í gærkvöldi og þeir sem unnu á vettvangi í nótt voru ansi blautir að sögn Halldórs Karls Hermannssonar, hafnarstjóra Reykjaneshafnar.
 
Skipið hefur verið bundið fast á strandstað til að tryggja að það fari ekki af stað í veðrinu. Ekki liggur fyrir hvenær skipið verður dregið á brott. Einhverjir dagar eru þó í þá aðgerð.