Enginn hefur nýtt sér neyðarhnapp
- sem lögreglustjóri og öryggisfyrirtæki gerðu samning um.
Lögreglustjóri hefur samið við öryggisfyrirtæki um að láta þolanda í té neyðarhnapp ef lögregla metur þolanda í hættulegri eða sérlega viðkvæmri stöðu. Enn hefur ekki reynt á þetta en þjónustan er til reiðu ef á þarf að halda. Þetta úrræði er nýung á Íslandi en því er beitt í nágrannalöndum. Þetta kemur fram í ársskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum.
Öll heimilisofbeldismál sem upp komi hjá embættinu séu áhættumetin til að leggja mat á hvaða líkur séu á ítrekunarbrotum og hve miklar líkur séu á mjög alvarlegum atburði. Slík áhættugreining er einnig nýtt við ákvörðun lögreglustjóra um hvort leggja beri á nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Tilrauna- og samstarfsverkefni, lögreglunnar á Suðurnesjum og félagsþjónustunnar, „Að halda glugganum opnum“, hefur að mati embættisins gefist afar vel. Það er mat embættisins að heimilisofbeldi sé ekki einkamál fólks. Um sé að ræða þjóðfélagslegt mein sem beri að uppræta enda hafi slíkur atburður mun víðtækari áhrif en þau áhrif sem það hefur á geranda og þolanda. Heimilisofbeldi hafi skelfileg áhrif á börn sem eru á heimilinu. Þá séu dulin þau fjárhagslegu áhrif sem heimilisofbeldi hafi í samfélaginu.