Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Enginn feluleikur segir Guðbrandur
    Frá fyrsta bæjarstjórnarfundi nýs meirihluta.
  • Enginn feluleikur segir Guðbrandur
    Guðbrandur Einarsson.
Föstudagur 4. júlí 2014 kl. 18:00

Enginn feluleikur segir Guðbrandur

Nýr meirihluti ætlar að gefa sér meiri tíma.

„Það er enginn feluleikur í þessu. Þetta er allt saman gert fyrir opnum tjöldum og að höfðu samráði bæði við innanríkisráðuneytið og Samband sveitarfélaga. Niðurstaðan varð þessi,“ segir Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi nýs meirihluta hjá Reykjanesbæ og oddviti Beinnar leiðar. Víkufréttir höfðu samband við hann í dag.

Bæjarráð Reykjanesbæjar hafnaði á fundi sínum í gær, tillögu Kristins Jakobssonar oddvita Framsóknar, um launaða áheyrnarfulltrúa Framsóknarflokksins í nefndum. Í aðsendri grein segir Kristinn m.a. að nú kjósi nýr meirihluti að ganga á bak kosningaloforða framboðanna sem hann mynda, um aukið íbúalýðræði, opnari og gagnsærri stjórnsýslu og aukin áhrif íbúa á nærumhverfi sitt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðbrandur segir að það að verið sé að ganga á bak kosningaloforða vilji hann bara svara með þeim hætti að það sé bara liðin rúm vika frá því að núverandi meirhluti tók við völdum. „Við ætlum að gefa okkur lengri tíma en eina viku til þess vinna að framgangi okkar stefnumála. Ef ný bæjarstjórn Reykjanesbæjar kemst að þeirri niðurstöðu að vel athuguðu máli, að rétt sé að breyta bæjarmálasamþykkt með einhverjum hætti, þá verður það gert. En við skulum gefa okkur tíma í það. Sé það hins vegar þannig að fulltrúar Framsóknarflokksins telji að á sér hafi verið brotið, þá eiga þeir að sjálfsögðu að leita réttar síns,“ segir Guðbrandur.

Spurður meginrök fyrir því að meirihlutinn hafni áheyrnarfulltrúa í sex fastanefndum, segir Guðbrandur að afstaða meirihlutans byggi á því að þau vilji og þeim beri fyrst og fremst að fylgja bæjarmálasamþykkt Reykjanesbæjar og sveitarstjórnarlögum. „Þar er talað um að það sé hægt að heimila framboðum að fá áheyrn í nefndum sem hafa þetta svokallaða fullnaðarákvörðunarvald sem er endanlegt vald. Þær nefndir sem framsóknarmenn vildu fá áheyrnarfulltrúa í hafa ekki slíkt vald. Fullnaðarákvörðunarvaldið liggur í bæjarstjórn þar sem fulltrúi Framsóknarflokksins situr og eins í bæjarráði þar sem bæjarráð samþykkti að fulltrúi Framsóknarflokksins hefði seturétt og fengi jafnframt greiðslu fyrir þá setu,“ segir Guðbrandur.

Í grein Kristins kemur fram að fordæmi séu fyrir því að áheyrnarfulltrúar sitji í nefndum hjá stærri sveitarfélögum. „Það má vera að Kristinn geti fundið fordæmi fyrir þessari ósk sinni  annars staðar, máli sínu til stuðnings, en það má líka finna dæmi  þess að þetta hafi verið gert eins og verið er að gera hér. Skemmst er að minnast þess að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík er í sömu stöðu og flokkurinn er í  hér í Reykjanesbæ þ.e. með kjörna fulltrúa í borgarstjórn en ekki í fastanefndum,“ segir Guðbrandur.

Í þessu tilfelli hafi meirihlutinn leitað álits aðila sem hafa með málefni sveitarfélaga að gera og í því áliti kom m.a. fram að ef það væri niðurstaðan að nefndinni hafi ekki verið falið fullnaðarákvörðunarvald þá ætti ekki að vera þörf á áheyrnarfulltrúa og nær heimild 4. mgr. 44. gr. samþykktar sveitarfélagsins til að tilnefna áheyrnarfulltrúa eingöngu til þess ef slíkt vald er til staðar hjá viðkomandi nefnd.

Spurður um hvort fordæmi hafi verið fyrir því í tíð fyrrum meirihluta að áheyrnarfulltrúar sitji í fastanefndum og hvort nýr meirihluti sé að stíga óvænt skref með þessari ákvörðun, segir Guðbrandur svo ekki vera. „Fordæmi er ekki til staðar í Reykjanesbæ og við erum því ekki að stíga nein óvænt skref hvað þetta varðar. Fulltrúar hagsmunahópa geta skv. lögum hugsanlega átt sæti í nefnd með áheyrn en það er þá meitlað í stein hvernig með skuli farið,“ segitr Guðbrandur að endingu.