Engin stór þorrablót en þorrabakkar á Réttinum á bóndadaginn
Engin stór þorrablót verða haldin á Suðurnesjum en þorramatur er þó í boði í verslunum og á matstofunni Réttinum í Reykjanesbæ. „Við bjóðum upp á þorrabakka í tveimur stærðum sem eru tilvaldir í litlar þorraveislur í kvöld og um helgina,“ segir Magnús Þórisson á Réttinum.
Sama staða var upp í fyrra vegna heimsfaraldurs og þá bauð Rétturinn upp á tilvalda þorrabakka til að fara með heim. Þar er allt það helsta í þorramat í boði, súrmatur og minna súrir réttir eins og svið, hangikjöt og síld. Þá verður boðið upp á heitt salkjöt og sviðakjamma frá kl. 17 til 19 á bóndadaginn á Réttinum.
Árið 2020 voru að minnsta kosti fjögur stór þorrablót á Suðurnesjum, í Keflavík, Njarðvík, Garði og Grindavík. Á fjórða þúsund manns sóttu þau og skemmtu sér vel. Margir sakna þess að geta ekki sótt þessi skemmtilegu blót og einhverjir hafa sagt að þeim væri sama þó það yrðu haldin blót í vor. Ekki hefur þó heyrst að það standi til.
Það var mikið stuð á þorrablóti Keflavíkur fyrir tveimur árum.