Engin sprengja um borð
Reyndust engin sprengiefni um borð og því hætta liðin hjá.
Leit er nú lokið í rússnesku farþegaflugvélinni sem lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun vegna þess að talið var að sprengiefni væru um borð. Hótun barst þess eðlis að fimm farangurstöskur af sprengiefni væru í vélinni en nú er nýafstaðin leit í vélinni. Reyndust engin sprengiefni um borð og því hætta liðin hjá.
Farþegar vélarinnar eru á Keflavíkurflugvelli og er áfallahjálparteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þeim til aðstoðar ásamt Suðurnesjadeild Rauða kross Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóra Suðurnesja er á flugvél á vegum rússneska flugfélagsins Aeroflot á leið til landsins og er henni ætlað að flytja farþegana áfram til Moskvu nú síðdegis.