Engin olía í fjörum enn sem komið er
Engin olía fannst í fjörum við Hvalsnes við athugun í morgun en mögulegt var talið að talsvert af olíu hafi lekið frá skipinu Wilson Muuga eftir að það strandaði í fjörunni á aðfararnótt þriðjudags.
Að sögn Tómasar Knútssonar, varaformanns umhverfisráðs Sandgerðisbæjar, var ekki að sjá að olía hafi enn komist úr skipinu og sé því sem stendur í botntönkum skipsins, sem eru mjög laskaðir eftir allt sem á undan hefur gengið. Fyrstu aðgerðir munu miða að því að dæla olíu úr botntönkunum upp í hliðartanka skipsins sem eru ofan sjólínu og ekki skemmdir enn.
Bæjar- og umhverfisráð hittust á neyðarfundi í gær með þeim Gesti Guðjónssyni frá Olíudreifingu og Gottskálki Friðgeirssyni frá Umhverfisstofnun, sem hefur yfirumsjón með aðgerðum á strandstað.
Aðþví er fram kemur í fundargerð tilkynnti Gottskálk að Umhverfisstofnun hefði fengið ábyrgðina eftir að björgunaraðgerðum var lokið og að lögð verði megin áhersla á að ná olíu úr tönkum skipsins til að koma í veg fyrir mikið umhverfisslys.
Fram kom í máli Gests að kjölur skipsins væri orðinn veikur og skipið byrjað að gefa sig. Botntankur skipsins er ónýtur og einnig kom fram að sjór væri kominn í lestar skipsins. Díselolía er beint undir vélinni og er gat á þeim tanki.
Fram kom að fleiri olíutankar væru í skipinu og væri kappsmál að reyna dæla þeirri olíu upp. Tilkynntu þeir að erfitt væri að byrja dæla vegna veðurs og aðstæðna. Óskar Gunnarsson, formaður bæjarráðs, spurði hversu lengi það tæki að dæla upp úr þeim tönkum sem staðsettir eru ofarlega í skipinu, Gestur svaraði að það tæki um 2 sólarhringa, en færi eftir aðstæðum.
Tómas Knútsson kom inn á aðferðir við að fæla fuglalíf frá hættustað og koma þeim í burt meðan skipið væri að brotna, ef það færi á þann veg.
Gottskálk og Gestur sögðu að þeir myndu gera allt sem í þeirra valdi væri mögulegt til að hindra umhverfisslys, en meðan veður og aðstæður eru eins og þær eru þá er takmarkað hvað hægt er að gera.
Næstu skref eru ekki fyrirsjáanleg, enda verður það að ráðast af aðstæðum á næstu tímum eða dögum. Fram kom að undirbúningur miðast við að málið gæti færið á versta veg.
Bæjarráð og umhverfisráð tilkynntu stuðning við þær aðgerðir sem nú eru í gangi og snúa að því að koma í veg fyrir umhverfisslys.
Bæjarstjóri lagði áherslu á náið samráð og voru fundarmenn einhuga í að viðhlada góðu sambandi á milli heimamanna og stjórnenda á strandstað.
Daglegir fundir verða ákveðnir síðar náist ekki árangur við losun á olíu úr tönkum skipsins fyrir helgi.
VF-mynd/Ellert Grétarsson