Engin líkamsræktarstöð í Grindavík eftir áramót?
Svo gæti farið að engin líkamsræktarstöð verði starfrækt í Grindavík eftir áramót en Orkubúið, sem verið hefur eina líkamsræktarstöðin í Grindavík um nokkurra ára skeið, mun loka um áramótin. Þrátt fyrir að stöðin hafi verið til sölu í um eitt og hálft ár hefur enginn sýnt áhuga á því að taka við rekstrinum. Kristinn Reimarsson, einn eiganda Orkubúsins, segir að ekki sé næg eftirspurn meðal Grindvíkinga til að halda úti rekstri líkamsræktarstöðvarinnar.
„Ég held að Grindvíkingar átti sig á því innan skamms hvað þeir eru að missa þegar búið er að skella í lás hjá okkur. Það voru rúmlega 300 manns sem skrifuðu á undirskriftarlista til bæjarstjórnar, þegar var orðið ljóst að við myndum loka, með áskorun um að halda úti tækjasal í bæjarfélaginu. Við hefðum þurft þessa 300 korthafa til að geta staðið undir rekstrinum. Reksturinn gekk vel til að byrja með en undan þessu hefur fjarað og fyrir því eru ýmsar ástæður. Það er auðvitað bagalegt ástand fyrir bæjarfélagið að vera án líkamsræktarstöðvar. Það eru alla vega tvö ár þar til að Grindvíkingar eignast líkamsræktarstöð í almennilegu rými eins og staðan er núna,“ segir Kristinn sem hefur rekið stöðina ásamt Ásdísi Sigurðardóttur undanfarin ár.
Kristinn starfar sem sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar. Hann ákvað að setja stöðina á sölu þegar ljóst var að til hagsmunaárekstrar gæti komið vegna stöðu sinnar hjá bæjarfélaginu. Kristinn hefur meðal annars yfirumsjón með íþróttamannvirkjum hjá Grindavíkurbæ. „Við settum stöðina á sölu í fyrrahaust en þrátt fyrir það höfum við ekki fengið eina einustu fyrirspurn. Ég geri ekki ráð fyrir því að aðrir aðilar komi til með að leysa okkur af hólmi í núverandi mynd.“
Aftur í sundlaugarkjallarann?
Grindavíkurbær auglýsti nýverið aðstöðu í kjallara sundlaugarinnar til leigu með hugsanlega líkamsræktarstöð í huga. Rekin var lítil líkamsræktarstöð í því rými á vegum bæjarins fyrir nokkrum árum og hefur bænum borist tilboð frá einkaaðila. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að það sé ekki hlutverk Grindavíkurbæjar að reka líkamsræktarstöð en vonast til að bærinn geti búið til betri jarðveg fyrir slíkan rekstur á næstu árum.
„Við erum að reyna að bregðast við þessari stöðu. Við höfum skoðað vel þann möguleika sem er í hendi með kjallara sundmiðstöðvarinnar til bráðabirgða en eigum eftir að fá það samþykkt hjá brunaeftirlitinu að vera með slíkan rekstur í þessu rými. Við buðum út rekstur í þessu rými fyrir skömmu og höfum fengið tilboð frá einum aðila. Það er ekki hlutverk bæjarfélagsins að reka líkamsræktarstöð en vonandi náum við að búa til aðstöðu svo að svona rekstur þrífist í bæjarfélaginu,“ sagði Róbert í samtali við Víkurfréttir.
Unnið er að hönnun nýrrar íþróttamiðstöðvar sem yrði um 300-400 m2 að stærð og gert er ráð fyrir að hún opni eftir tvö til þrjú ár. Það gæti því liðið nokkur tími þar til líkamsræktarstöð, líkt og Grindvíkingar þekkja í núverandi stærð, muni opna í Grindavík á ný. Um 2800 manns búa í Grindavík og er einn mesti íþróttabær landsins með karlalið í efstu deild í bæði knattspyrnu og körfuknattleik.