Engin breyting á áformum um álver í Helguvík
Áform um byggingu álvers í Helguvík hafa ekki breyst. Hægt var á framkvæmdum þar síðasta haust þegar íslensku bankarnir lentu í vandræðum og leita þurfti nýrra aðila við fjármögnun bæði álvers- og orkuframkvæmda. Síðan hafa framkvæmdir verið samkvæmt áætlunum. Íslenskir Aðalverktakar eru langt komnir með byggingu á undirstöðum kerskála fyrir fyrsta áfanga og íslenska verkfræðisamsteypan HRV vinnur að hönnun og hefur yfirumsjón með verkinu.
Tap Century á síðasta ári var fyrst og fremst vegna reiknaðra liða, s.s. skatta og afleiðusamninga. Hagnaður var hins vegar af reglubundnum rekstri, segir Ágúst F. Hafberg framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli í tilkynningu. Rekstur Norðuráls gekk vel í fyrra. Álverið á Grundartanga framleiddi um 272.000 tonn af áli og var útflutningsverðmæti þess ríflega 60 milljarðar.
Veruleg verðlækkun, sem orðið hefur á áli, hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á rekstrargrundvöll álvera og hefur Century þegar hætt framleiðslu í einu álveri í Bandaríkjunum sem komið var til ára sinna og því ekki lengur samkeppnisfært við núverandi áðstæður. Staða Norðuráls er mjög traust enda er rekstur álversins á Grundartanga á heimsmælikvarða. Brugðist hefur verið við erfiðum aðstæðum með lækkun kostnaðar og hagræðingu en engin áform eru uppi um niðurskurð framleiðslu hjá Norðuráli.