Engin atriði leggjast með rekstri vélsmiðju á svæðinu
„Umhverfis- og skipulagsráð telur rekstur vélsmiðju ekki samræmanlegan 600 íbúða byggð sem rís í nágrenninu á næstu árum eða ferðaþjónustu sem lögð er áhersla á við uppbyggingu svæðisins eins og fram kemur í stefnu Reykjaneshafna og Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035.“ Þetta kemur fram í nánari rökstuðningi ráðsins til eiganda Víkurbrautar 3 í Keflavík.
Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu var send í grenndarkynningu. Andmæli bárust og erindið var afgreitt á 315. fundi umhverfis- og skipulagsráðs sem tekur undir andmæli með svohljóðandi bókun: „Frekari uppbygging iðnaðarhúsnæðis er ekki heimil á miðsvæði. Erindi hafnað.“
Tító ehf., eigandi fasteignar á lóðinni, óskaði eftir rökstuðningi umhverfis- og skipulagsráðs fyrir höfnun á viðbyggingu við fasteign. Umhverfis- og skipulagsráð telur rekstur vélsmiðju ekki samræmanlega 600 íbúða byggð sem rís í nágrenninu á næstu árum eða ferðaþjónustu sem lögð er áhersla á við uppbyggingu svæðisins eins og fram kemur í stefnu Reykjaneshafna og Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035. Starfsemi vélsmiðju fylgir hávaði við málmvinnslu og notkun á stórum og þungum búnaði. Með stækkun húsnæðis er viðbúið að starfsemin aukist.
Þá segir að það er viðbúið að með þéttingu byggðar fylgi réttmætar kvartanir vegna starfsemi og yfirbragðs starfsemi vélsmiðjunnar, því meiri sem uppbygging er því þyngra verður að taka á óhjákvæmilegum breytingum á landnotkun og fylgja eftir kröfum til starfseminnar innan miðsvæðisins. Fylgja þarf eftir ákvæði um að starfsemi fari jafnan fram á almennum vinnutíma virka daga og starfsemi um helgar sé takmörkuð.
Þá segir ráðið að engin atriði leggist með rekstri vélsmiðju á svæðinu eða stækkunar á húsnæðinu en fjölmörg atriði sem leggjast gegn því eins og að ofan hefur verið talið. Rekstur vélsmiðju er víkjandi á svæðinu og stækkun hennar gengur þá þvert á markmið og skilmála Aðalskipulags Reykjanesbæjar 2020–2035.
Guðbergur Reynisson, Sjálfstæðisflokki, bókaði eftirfarandi:
„Við gerð aðalskipulags þarf að hugsa til langs tíma, eða nokkurra tuga ára og ef hugsjónin er góð þarf að standa við skipulagið.
Allir sem falla undir aðalskipulagið ættu að hafa fengið vitneskju og kynningu á framtíðarsýninni og eða stefnubreytingunni og ættu því ekki að undrast ef hönnuðir þessa aðalskipulags hnika ekki frá því.
Lítil og meðalstór fyrirtæki eru ein meginstoð þjóðfélagsins og verða að mega stækka og dafna en vitandi af aðalskipulaginu halda margir aðilar áfram sinni vinnu og bíða þess að uppbygging hefjist sem þeir á endanum taka þátt í eða hverfa á brott.
Það er aftur óeðlilegt að þeir aðilar sem ætla sér þróun og uppbyggingu innan aðalskipulagsins geti setið á stórum hluta bæjarins og haldið í gíslingu í tugi ára og þá er ekki bara verið að hugsa um litlu og meðalstóru fyrirtækin sem gætu ef höft aðalskipulags væru ekki á, jafnvel stækkað og dafnað á þessu svæði þannig að gera þyrfti breytingu með tilliti til þeirra, heldur þarf líka að hugsa um útlit og umhverfi bæjarins allan þennan tíma. Viljum við að bærinn breytist að miklum hluta í drauga- og hreysahverfi?
Vegna þessa óska ég eftir að umhverfis- og skipulagsráð boði þá aðila sem eiga hina ýmsu óklár-uðu reiti í bænum á sinn fund og þessir aðilar setji með sér tímalínu hvenær á að byrja og hvenær er áætlað að framkvæmdum verði lokið.“
Gunnar Felix Rúnarsson, Umbót, tekur undir bókun Guðbergs.