Engin ástæða til óttast að mannvirkin séu gjörónýt
„Það er engin ástæða til hræðslu þrátt fyrir að bryggjan sé búin að síga, við erum á verði en munum ekki fara út í neinar dramatískar fyrirbyggjandi aðgerðir að svo stöddu,“ segir Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri Grindavíkurhafnar. Við hamfarirnar í nóvember og aftur í janúar, seig land í Grindavík nokkuð. Á hafnarsvæðinu seig Kvíabryggja um 30 til 40 sentimetra í viðbót við þá 50 sentimetra sem land í Grindavík hefur sigið síðan 1980.
Sigurður segir að hafnarstarfsmenn muni vakta hafnarsvæðið eftir því sem hægt er þegar stórstraumsflóð ber upp og skýrði út hvað er í gangi þá.
„Tími milli flóðs og fjöru er rúmlega sex klst. Því flæðir tvisvar að og frá á rúmlega sólarhring. Stórstraumsflóð og -fjara verða á u.þ.b. tveggja vikna fresti þegar jörðin, sólin og tunglið eru í beinni línu, þ.e. þegar tungl er fullt og svo á nýju tungli. Munur milli háflæðis og fjöru er þá mestur. Að sama skapi er smástraumsflóð og -fjara um viku síðar. Stórstraumsflóð í Grindavík er alltaf kl. 7 og 19 á tveggja vikna fresti. Þegar svo ber undir að í stórstreymi, í stífri suðlægri vindátt með hárri ölduhæð og löngum sveiflutíma ásamt lágum loftþrýstingi, er nánast öruggt að sjór muni flæða yfir bryggjur og við erum að undirbúa okkur undir þannig atburði. Vegagerðin hefur keypt 100 metra flóðvarnargirðingu sem er sett saman af fimm metra löngum hylkjum sem fyllt eru af sjó eða vatni. Við sjáum fyrir okkur að setja flóðvarnagirðingar á þau svæði sem Vegagerðin mun ásamt okkur meta sem mest útsett fyrir flóðahættu sem er vestasta bryggjan okkar í Grindavík, hún hefur alltaf verið lægst og seig mest að undanförnu.
Það er engin ástæða til óttast að mannvirkin séu gjörónýt, við tökum á þessu þegar þar að kemur og ég trúi því staðfastlega að við spýtum rækilega í lófana og hefjum uppbyggingu bæjarins. Eldgosin eru að færa sig fjær Grindavík og okkur því ekkert að vanbúnaði að hefjast handa. Ég á ekki von á neinu öðru en höfnin verði iðandi af lífi eftir áramót þegar vertíðin hefst en skipstjórnarmenn hafa haldið að sér höndum að undanförnu, eðlilega kannski þar sem eldgos var í aðsigi. Það brast loksins á, fjarri Grindavík og ég á ekki von á öðru en bátar og skip muni fylla Grindavíkurhöfn áður en langt um líður,“ sagði Sigurður að lokum.