Engin ástæða til að óttast á Reykjanesi
Eins og fram kom í sjónvarpsfréttum RUV í gærkvöldi hafa geislavirk spilliefni fallið til við orkuvinnslu í Reykjanesvirkjun og þau urðuð á svæðinu frá árinu 2006 í lokuðum ílátum. Engin ástæða er til að óttast, segja forstjórar Geislavarna ríkisins og HS orku. Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands segist taka orð Geislavarna gild. Þetta kemur fram á reykjanesbaer.is.
Sigurður M. Magnússon forstjóri Geislavarna ríkisins sagði í kvöldfréttum sjónvarps í gær að um náttúruleg geislaefni væri að ræða, auk þess sem geislavirknin væri bæði lítil og skammdræg. Farið var að skoða málin um síðust áramót en ekki hafi þótt ástæða til að láta íbúa Reykjaness vita af því. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hafi verið upplýstur um málið.
Að sögn Ásgeirs Margeirssonar forstjóra HS orku hefur verklagi í virkjuninni verið breytt og starfsmenn fengið öflugari búnað til að meðhöndla efnin. Ekki sé ástæða til að ætla að skaði hafi orðið af við meðhöndlun efnanna og urðun þeirra undanfarin ár. Ennfremur sagði Ásgeir í kvöldfréttum RUV að HS orka hafi vilja vinna að málinu með Geislavörnum áður en það færi víðar. Það hafi nú verið gert.
Árni Finnsson formaður Náttúrverndarsamtaka Íslands vill láta kanna um hvers konar geislavirkni sé að ræða, hversu mikil og hvaða efni. Hann sagði í sjónvarpsfréttum í gær taka orð forstjóra Geislavarna ríkisins gild.
Á heimasíðu Geislavarna ríkisins má lesa grein um uppsöfnun náttúrulegra geislavirkra efna. Greinina má einnig nálgast hér.