Engar vindmyllur við Grindavík
Biokraft ehf. hefur sótt um að reisa vindmyllu við Grindavík, eins og áður hefur verið greint frá í Víkurfréttum. Í erindi til bæjaryfirvalda í Grindavík er lýst áætlunum um uppbyggingu vindmyllu á Stað.
Mastur vindmyllunnar er 40 m, þvermál blaðahrings er 44 m og mun mannvirkið því ná 62 m hæð. Hluti skipulags- og umhverfisnefndar fór í skoðunarferð í Þykkvabæ þann 15. október sl. og hittu forsvarsmenn Biokraft og skoðuðu samskonar vindmyllur. Skipulags- og umhverfisnefnd telur mannvirkið ekki falla vel að þeirri náttúru sem er í nágrenni Grindavíkur. Sem stendur er mikil vinnsla á vistvænni orku í sveitarfélaginu í gegnum jarðvarma og ekki fyrirséð orkuþörf sem kalli eftir uppsetningu vindmyllna við strandlengju sveitarfélagsins.
Skipulags- og umhverfisnefnd Grindavíkur leggur til að erindinu verði hafnað og bæjarstjórn Grindavíkur samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og umhverfisnefndar og beinir því til nefndarinnar að við endurskoðun aðalskipulags verði metið hvort og þá hvar heimilt verði að reisa vindmyllur innan skipulagsmarka Grindavíkur.