Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Engar fernur í Akurskóla
    Nemendur í Akurskóla fá sér vatnsglas í morgunhressingu. VF-mynd/dagnýhulda.
  • Engar fernur í Akurskóla
    Börn í Akurskóla fá sér mjólk í glös
Föstudagur 16. október 2015 kl. 07:00

Engar fernur í Akurskóla

- Nemendur og starfsfólk grunnskóla í Reykjanesbæ láta ekki sitt eftir liggja í umhverfisvernd

„Núna eru nemendur og foreldrar mjög ánægðir með þetta og hvað er betra en ísköld mjólk með samlokunni á morgnana,“ segir Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla í Reykjanesbæ. Frá stofnun skólans árið 2005 hafa nemendur verið hvattir til að koma ekki með drykki í fernum með sér að heiman í nesti í skólann. „Eins og alltaf með nýjungar þá voru skiptar skoðanir á þessu og eru í raun enn. Það er þó gaman að sjá að allir aðrir skólar í bæjarfélaginu hafa tekið þetta upp,“ segir hún.

Nemendur í Akurskóla eru 458 talsins og því er ljóst að í hverjum mánuði er komið í veg fyrir töluverða notkun á fernum. Ef miðað er við að í mánuði séu 22 skóladagar gerir það 10.076 fernur í Akurskóla á aðeins einum mánuði sé miðað við að hver nemendi kæmi með eina fernu í nesti á dag. Yfir heilt skólaár myndi fjöldi ferna vera um 80.000.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í rýmum nemenda í Akurskóla er svokölluð mjólkurbelja, vatnskönnur og glös. Því er alltaf köld mjólk í boði fyrir nemendur sem eru í mjólkuráskrift og vatn fyrir alla nemendur. Stefna Akurskóla í umhverfismálum nær til fleiri þátta. „Við hvetjum til að nemendur noti fjölnotabox undir nesti og notum eins lítið af einnota glösum og bollum eins og hægt er á viðburðum eins og samtalsdögum, árshátíð og á fundum. Við eigum töluvert af diskum og slíku sem við grípum í og reynum að bæta við það í stað þess að kaupa einnota,“ segir Sigurbjörg. Þá eru allir matarafgangar í skólastofum flokkaðir og notaðir til moltugerðar fyrir utan skólann.

Ein af „mjólkurbeljunum“ í Akurskóla