Engar eldsneytisvélar á Keflavíkurflugvelli
Skortur er á Herkúles-eldsneytisflugvélum hjá Bandaríkjaher og hafa þær ekki fasta viðveru á Keflavíkurflugvelli. Þurfi björgunarþyrlur Varnarliðsins að taka eldsneyti á flugi á langferðum þurfa eldsneytisvélar að koma á móti þeim frá Bretlandi.
Björgunarsveit varnarliðsins hefur oft tekið þátt í björgun hér við land. Í sumum tilvikum hafa slys orðið langt út af landinu og hafa björgunarþyrlur Varnarliðsins því stundum þurft að taka eldsneyti á flugi. Árið 2002 fóru t.d. tvær björgunarþyrlur Varnarliðsins og eldsneytisvél til að sækja alvarlega veikan mann um borð í togara langt undan landi og í hittiðfyrra fóru aftur tvær þyrlur héðan ásamt eldsneytisvél til að sækja mann um borð í skipi um 270 sjómílur suðaustur af Keflavík. Skipið var á alþjóðlegu hafsvæði sem fellur undir björgunarmiðstöð á Skotlandi en ákveðið var að senda björgunarlið héðan þar sem styttra væri til Íslands.
Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Varnarliðsins, segir að eldsneytisvélar hafi ekki lengur fasta viðveru á Keflavíkurflugvelli. Skortur sé á Herkúles-eldsneytisvélum hjá Bandaríkjaher. Slík vél sé reyndar á vellinum nú og þær komi hingað annað slagið. Flugmenn á 5 björgunarþyrlum sem hér séu þurfi æfingu í að taka eldsneyti á flugi.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni getur stærri þyrla Gæslunnar, TF-LÍF flogið um 280 sjómílur út frá landinu, verið á lofti í hálftíma þrjú kortér og komist til baka aftur án þess að taka eldsneyti. Þetta fer þó eftir hleðslu þyrlunnar, veðri og vindum og fleiri þáttum.
Friðþór Eydal segir flugþol björgunarþyrla Varnarliðsins vera svipað og hjá þyrlu gæslunnar. Þurfi björgunarþyrla frá varnarliðinu að sækja sjúkling lengra en flugþolið býður, megi senda eldsneytisvél á móti henni frá Bretlandi.
Ríkisútvarpið greindi frá þessu.