Endurvinnslu- og gámaplan Grindavíkur yfirfullt
„Þessi gámur var tómur fyrir einum og hálfum klukkutíma, nú er hann orðinn fullur,“ segir Miroslav Sopina sem er umsjónarmaður endurvinnslu- og gámaplans Grindavíkur en mikið hefur borið á óánægju þeirra Grindvíkinga að undanförnu sem eru að tæma húsin sín vegna sölu til Þórkötlu. Röðin á laugardaginn lá nánast út úr bænum, allt orðið fullt og Grindvíkingar létu móðinn mása á samfélagsmiðlum.
Steinþór Þórðarson er framkvæmdastjóri Kölku. Hann segir að Kalka hafi frá upphafi þessara atburða reynt koma til móts við þarfir Grindvíkinga. Það hafi hins vegar ekki alltaf verið skýrt hver þörfin sé.
„Við í Kölku höfum ekki alltaf vitað hver staðan er í Grindavík. Býr þar fjöldi manns eða kannski einhverjir tugir? Nú kemur upp sú staða að pressa er sett á íbúa að tæma hús og okkur er ókunnugt um það. Á sama tíma hefur bærinn verið lokað hættusvæði og við höfum hreinlega ekki fengið leyfi til að fara þarna inn.“
„Það sem gengið hefur á í Grindavík á sér varla fordæmi og enginn í þessari keðju sem samstarf um úrgangsmál er hefur reynslu af svona nokkru. Ég vil ekki gagnrýna bæjaryfirvöld í Grindavík, sem hafa haft ótal gríðarstór mál á sinni könnu en við hefðum stundum viljað fá meiri upplýsingar. Við höfum brugðist við öllum beiðnum hingað til, sent söfnunarteymi í bæinn og opnað planið þegar ástæða hefur þótt til. Á móti þeim helgum sem álag á planinu hefur verið mjög mikið eru miklu fleiri helgar þar sem við höfum verið með viðbúnað en fáir hafa komið og jafnvel enginn. Við bættum við tveimur gámum en þegar tugir, jafnvel hundruð fjölskyldna eru að tæma húsin sín þá eru þeir fljótir að fyllast,“ segir Steinþór.
„Við gerum það sem við getum til að koma til móts við Grindvíkinga en það má ekki gleyma að við stjórnum þessu ekki öllu. Við höfum þurft leyfi Almannavarna til að komast í að tæma ruslatunnur Grindvíkinga og opna planið. Við þurfum að vinna þetta með yfirvöldum. Við viljum allt fyrir Grindvíkinga gera, það er nógu erfitt fyrir þá að þurfa yfirgefa heimili sín og henda jafnvel stórum hluta búslóðar sinnar því hún kemst ekki fyrir á nýja heimilinu. Þetta væri reyndar ekkert vandamál ef Grindvíkingar þyrftu ekki að tæma húsin sín og ég skil ekki út af hverju þarf að gera það. Enginn mun búa í þessum húsum næstu árin og þessir hlutir myndu geymast vel þar og þá væri áfram þessi tenging bæjarbúa við gamla heimilið sitt, sem væntanlega myndi auka líkurnar á að viðkomandi myndi snúa til baka á einhverjum tímapunkti.
Strax við upphaf þessara atburða í nóvember tókum við upp samtal við gámafyrirtækin sem Kalka er með samning við vegna söfnunar úrgangs frá heimilum. Það samtal var frá upphafi jákvætt og lausnamiðað og við höfum ekki fengið reikninga vegna þjónustu sem ekki þurfti að veita. Sömuleiðis hafa gámafélögin, Íslenska gámafélagið og Terra, alltaf verið til í samstarf þegar aðstæður í Grindavík hafa kallað á þjónustu. Grindavíkurbær tók svo af skarið með að fólk skyldi ekki gera ráð fyrir tæmingu íláta við heimili og þyrfti því að leita annarra úrræða með sinn heimilisúrgang. Tæming húsa í stórum stíl er svo nýjasta sviðsmyndin og hana sáum við ekki fyrir. Kalka veitir þjónustu í samræmi við ákvörðun stjórnar þar um. Það væri ekkert óeðlilegt að leita annað eftir þjónustu þegar og ef verkefnin eru þess eðlis. Allt sem Kalka getur gert til að koma til móts við þessar þarfir er hins vegar sjálfsagt mál af okkar hálfu,“ sagði Steinþór.
Davor Lucic er rekstrarstjóri sorphirðu- og endurvinnsluplana og fór yfir hvernig hann sér þau mál þróast á næstunni.
„Í Grindavík eru sorphirðuílát við heimili upp á umtalsverðar upphæðir og það er nú ekki gott að þau liggi eins og hráviði út um allan bæ. Mér finnst ekki ólíklegt að við munum sækja þessi ílát, a.m.k. til þeirra heimila sem ekki eru líkur á að verði notuð á næstunni. Svo er spurning hvernig bæjarbúar geti þá hagað sínum úrgangsmálum. Framtíðin verður bara að leiða það í ljós. Þegar allir Grindvíkingar verða búnir að losa húsin sín verður held ég ekki þörf á að halda gámasvæðinu opnu. Ein hugmyndin er að það verði settir upp grenndargámar eins og tíðkast í sumarbústaðabyggðum. Ég held að það yrði farsælasta lausnin fyrir bæjarbúa og Kalka verður Grindavíkurbæ að sjálfsögðu innan handar við að koma upp svona þjónustu – verði sú leið ofan á. Þetta þarf allt að gerast í góðri samvinnu og þegar kallið kemur frá Grindavíkurbæ leysum við málin í sameiningu – hér eftir sem hingað til,“ sagði Davor að lokum.
Miroslav Sapina hefur verið umsjónarmaður endurvinnslu- og gámaplans Grindavíkur undanfarin þrjú ár. Hann segir lygilegt hversu miklu af heilu dóti Grindvíkingar séu að henda þessa dagana.
„Þetta er ótrúlegt, Grindvíkingar neyðast til að henda heilum hlutum, þessi gámur var tómur fyrir einum og hálfum klukkutíma síðan. Við höfum reynt að koma heilum húsgögnum og öðrum munum til fyrirtækja sem eru að selja notaða hluti en það er allt yfirfullt hjá þeim. Við höfum bætt við tveimur gámum og komum ekki fleirum á planið hjá okkur en þeir eru fylltir jafnharðan. Ég skil þetta bara ekki, út af hverju þurfum við Grindvíkingar að tæma húsin okkar? Að geta ekki bara geymt þessa hluti á gamla heimilinu okkar og það hvetur okkur þá frekar til að halda tengingu við heimilið og þar með bæinn, það er allt rangt við þetta og ég vona að yfirvöld muni breyta þessu,“ sagði Miroslav.
Stefán Sæmundur Jónsson er Grindvíkingur en fluttur í Sveitafélagið Voga, hann var mættur með stútfulla kerru.
„Ég er að fara úr 250 fermetra húsi á tveimur hæðum, í fínt hús á einni hæð í Vogunum. Stór hluti af búslóðinni þarf því miður að fara á haugana og auðvitað er líka búið að safnast upp alls kyns drasl sem þurfti hvort sem er að henda. Þetta er sorgardagur í mínum huga, mér finnst ömurlegt að þurfa flýja bæinn minn og finnst algjörlega galið að þurfa tæma húsið, skil bara ekki tilganginn með því á meðan enginn er að fara búa í húsinu á næstunni,“ sagði Stefán.
Pílukastarinn og stýrimaðurinn Páll Árni Pétursson var í sömu erindagjörðum.
„Ég er ekki búinn að selja og er því ekki sjálfur að standa í þessum flutningum, er að hjálpa vinum og mér finnst sorglegt að horfa upp á hversu miklu af flottum og heilum hlutum fólk þarf nauðbeygt að henda því það kemur hlutunum ekki fyrir á nýja heimilinu sínu,“ sagði Palli að lokum.