Endurskipulagningarferli Kölku á réttri leið
Á 35. aðalfundi Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. sem haldinn var 24. apríl síðastliðinn kom m.a. fram að endurskiplagningarferli stöðvarinnar frá árinu 2010 hefur gengið vel og reksturinn stefnir nú í að verða sjálfbær. Hagnaður hefur verið af rekstrinum frá árinu 2010 og var rekstrarhagnaður ársins 2012 tæplega 102 milljónir króna.
Samvinna við lánardrottna fyrirtækisins hefur gengið mjög vel frá því að ferlið hófst og sér nú fyrir endann á því með mikilli niðurfærslu skulda. Þegar ferlið hófst námu heildarskuldir um 1,3 milljörðum og eigið fé var neikvætt uppá um 600 milljónir - samfellt tap hafði verið af rekstri frá upphafi í Helguvík. Ásamt því að rekstrinum hefur verið snúið til betri vegar stefnir í að skuldir muni lækka um meira en helming frá því ferlið fór í gang.
Á aðalfundinum kom einnig fram að vegna betri rekstrarniðurstöðu svo og vegna upptöku hóflegra notendagjalda á endurvinnslustöðvum gat stjórn fyrirtækisins tekið ákvörðun um að hækka ekki sorphirðu- og sorpeyðingargjöld á sveitarfélögin fyrir árið 2013 frá því sem gjaldið var á árinu 2012.
Frá árinu 2006 til 2012 höfðu þessi gjöld hækkað að meðaltali um 14,5% á ári sem var talsvert umfram verðlagsþróun.
Forstjóri Umhverfisstofnunar var gestur á aðalfundinum og voru ýmis mál sem varða starfsleyfi og umhverfisþætti fyrirtækisins til umræðu. Uppsöfnun svokallaðrar „flugösku“ hefur verið óleyst vandamál hjá fyrirtækinu fram til þessa og hefur verið unnið að framtíðarlausn þess m.a. í góðri samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar var gestur á fundinum, hér í pontu, ásamt Ríkharði Ibsen fundarstjóra, sem leitt hefur endurskipulagninguna frá 2010.