Endurskipulagning skilar verulegum árangri
Ársreikningur Sandgerðisbæjar fyrir árið 2012 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í í gær 11. apríl. Seinni umræða um reikninginn fer fram 8. maí. Ársreikningurinn sýnir vel að aðhaldsaðgerðir og endurskipulagning fjármála og reksturs síðustu ára skilar tilætluðum árangri.
„Rekstrarstaða Sandgerðisbæjar hefur batnað verulega og þróun síðustu 3ja ára sýnir að rekstrarhæfi bæjarfélagsins batnar jafnt og þétt. Bæjarbúar, starfsfólk bæjarins og samstarfsfólk mitt í bæjarstjórn hefur lagt mikið af mörkum við að koma rekstrinum í betra horf“, segir Ólafur Þór Ólafsson forseti bæjarstjórnar, en samkvæmt rekstrarreikningi samstæðu A og B hluta var rekstrarniðurstaða ársins 2012 jákvæð um 244 mkr. Það er mikill viðsnúningur frá árunum þar á undan.
Rekstrartekjur A og B hluta námu 1.580 mkr. en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.375 mkr. Til samanburðar námu tekjur A og B hluta 1.350 mkr. árið 2011 og rekstrartekjur A hluta 1.170 mkr. Heildartekjur milli ára jukust því um 17%.
Rekstrargjöld A og B hluta bæjarsjóðs námu 1.180 mkr. og stóðu nánast í stað milli áranna 2011 og 2012.
Eignir bæjarfélagsins í lok árs 2012 námu 5.908 mkr., þar af var handbært fé 1.340 mkr. Skuldir og skuldbindingar A og B hluta námu 4.940 mkr. í árslok 2012.
Kennitölur úr rekstri sýna að framlegð ársins 2012 fyrir A og B hluta er ríflega 25%. Árið 2011 var framlegðin tæp 14%, tæp 3% árið 2010 og neikvæð um ríflega 9% árið 2009.
Skuldahlutfall, þ.e. skuldir sem hlutfall af árlegum tekjum fer lækkandi. Samkvæmt útreikningum eftir reglugerð nr. 502/2012 um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga var skuldahlutfall ársins 2012 fyrir A og B hluta 230% en 177% fyrir A hluta. Til samanburðar var skuldahlutfallið árið 2011 310% fyrir A og B hluta en 254% fyrir A hluta samkvæmt sömu reglugerð.