Endurskapa Helliseyjarslysið við höfnina í Garði
Tökur kvikmyndarinnar Djúpið eftir Baltasar Kormák standa yfir í Garðinum um þessar mundir. Kvikmyndin er byggð á atburðum í tengslum við Helliseyjarslysið 11. mars 1984. Þá fórust fjórir menn en einn komst lífs af með því að synda í land eftir að vélbáturinn Hellisey VE 503 sökk um fimm kílómetra austur af Heimaey. Kvikmyndin er byggð á samnefndu leikriti Jóns Atla Jónassonar.
Í gærkvöldi hófust tökur við höfnina í Garði. Þar voru tekin sjósundatriði í myndinni í þungri öldu við endann á Gerðabryggju. Þá er kominn að bryggju í Garði báturinn Stormur Breki sem hefur verið merktur nafni Helliseyjar og fengið einkennisnúmerið VE 503. Báturinn er vaxborinn til að líkja eftir ísingu á kaldri vetrarnóttu.
Tökur fara fram seint á kvöldin og fram á nóttina í myrkri og verður tökuliðið á Suðurnesjum í um 10 daga. Meðal annars verður bátnum í myndinni hvolft og hann látinn sökkva. Byrjað verður á því að setja bátinn á hliðina í höfninni í Garði. Hann verður síðan látinn fljóta aftur og síðar í ferlinu verður honum hvolft og hann látinn sökkva í Helguvíkurhöfn. Það verða því blautir kvikmyndatökudagar í Garðinum og Helguvík á næstu dögum.
Gerðabryggja er orðinn einn heitasti tökustaður landsins þegar kemur að íslenskum kvikmyndum því fyrir fáeinum vikum voru tekin þar atriði í myndinni Gauragangur. Nú er það Djúpið.
Myndin: Frá Gerðabryggju í nótt. Báturinn Stormur Breki við bryggjuna. Hann fer með hlutverk Helliseyjar VE og verður m.a. hvolft og látið sökkva við kvikmyndatökuna. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson