Endurnýjaðir Víkingaheimar
Víkingaheimar hafa gengið gegnum mikla endurnýjun síðustu vikur og þar verður hægt að skoða og upplifa margar nýjar sýningar á næstu mánuðum. Víkingaheimar eru ekki bara eitt sýningarhús með einni sýningu heldur heilt svæði með margvíslegum sýningum og upplifunum, bæði úti og inni. Af þessu tilefni var opnunarhátíð haldin á staðnum í gær þriðjudaginn 24. apríl.
Á útisvæðinu er t.d. ný útikennslustofa sem býður upp á tækifæri til alls kyns fræðilegrar vinnu fyrir hópa. Landnámsdýragarður er rekinn á svæðinu yfir sumarmánuðina og nú er verið að leggja lokahönd á sérstakt leiksvæði þar sem leikir og íþróttir víkinga verða í fyrirrúmi. Þurrabúðin Stekkjarkot er tilgátuhús sem stendur í útjaðri svæðisins og tilvalið að kíkja þar í heimsókn.
Inni í sýningarhúsinu sjálfu verða fimm sýningar í gangi. Fyrst má telja Íslending, víkingaskipið sjálft sem sigldi til Ameríku árið 2000 og allt sem því fylgir. Einnig má sjá endurnýjaða sýninguna Víkingar Norður Atlantshafsins, sýningu um siglingar og landnám norrænna manna sem sett var upp í samstarfi við Smithsonian stofnunina í Bandaríkjunum. Þriðja sýningin í húsinu er sýning á merkum fornleifum af Suðurnesjum og má þar nefna gripi bæði úr Hafurbjarnarkumlinu og úr nýjustu rannsókninni í Höfnum. Fjórða sýningin er kynning á helstu söguslóðum á Íslandi unnin í samstarfi við Samtök um sögutengda ferðaþjónustu. Fimmta sýningin kallast svo Örlög goðanna og fjallar um norræna goðafræði. Þarna eru raktar ýmsar þekktar sögur af norrænu goðunum með aðstoð einstakra leikmynda eftir listakonuna Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur, tónlist eftir Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoða ásamt hljóðleiðsögn á fjórum tungumálum sem Ingunn Ásdísardóttir þjóðfræðingur hefur tekið saman.
Í húsinu er einnig fyrirlestrarsalur, sala á kaffiveitingum og minjagripum.
Víkingaheimar eru opnir allan ársins hring, sumaropnunin hefst 1. maí: Opið frá kl. 11.00 - 18.00. Aðgangseyrir er kr. 1.000 fyrir fullorðna, ókeypis fyrir börn 14 ára og yngri og hægt að fá hópafslátt.