Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Endurkomu British Airways til Íslands fagnað
Petar Rasmussen, svæðisstjóri British Airways í Norður-Evrópu, Stuart Gill, sendiherra og Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Leifsstöðvar, klipptu á borðann í tilefni
Mánudagur 26. október 2015 kl. 07:00

Endurkomu British Airways til Íslands fagnað

- Tuttugasta og fyrsta flugfélagið sem flýgur til Íslands

Farþegaþota British Airways lenti á slaginu kl. 14.45 á alþjóðaflugvellinum í Keflavík í gær í sínu fyrsta endurvakta áætlunarflugi til landsins. Vélin var þétt setin farþegum frá Heathrow í Bretlandi og jafnskjótt og farþegar gengu frá borði tók við hátíðardagskrá með veitingum, tónlistarflutningi og ræðuhöldum við innritunarhliðið þar sem brottfararfarþegar með vélinni til Heathrow höfðu þegar safnast saman til að njóta stundarinnar í boði British Airways og Isavia.

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, bauð flugfélagið velkomið á ný til Íslands sem hann sagði hið tuttugusta og fyrsta sem héldi úti áætlunarflugi til landsins og hið níunda sem starfrækti flug allan ársins hring. Sendiherra Bretlands á Íslandi, Stuart Gill, sagði ánægjulegt að flugfélagið hefði ákveðið að endurvekja flugið enda ferðuðust þúsundir Breta til landsins á ári hverju.

Að lokum þakkaði Peter Rasmussen, svæðisstjóri British Airways í Norður-Evrópu, farþegum það traust sem þeir hefðu sýnt flugfélaginu með því að hafa valið British Airways í þeirri hörðu samkeppni sem skapast hefur í flugi milli Keflavíkur og Lundúna. Hann sagði engan vafa leika á því að koma British Airways til Íslands á ný skapaði aukin tækifæri í ferðamöguleikum Íslendinga vegna þess mikla fjölda áfangastaða sem ferþegum bjóðist í vali á beinu tengiflugi áfram frá Terminal 5 á Heathrow til borga víða um heim. Hann nefndi sem dæmi að við komuna til Heatrow síðar kvöld byðu fjölmargar breiðþotur þess að leggja upp í ferð frá Terminal 5 til Kuala Lumpur, Hong Kong, Singapore, Sydneyar, Mumbai, Delí, Johannesarborgar, Buenos Aires og fjölmargra annarra staða ásamt áfangastöðum í Evrópu. Áætlun Íslandsflugsins lægi því vel við mörgum spennandi brottfarartímum flugfélagsins, bæði til borga í Evrópu og fjarlægum heimsálfum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024