Endurbætur hafnar við nýjan golfskála GG
Vinna við endurbætur á Barða-húsi, framtíðar golfskála Golfklúbs Grindavíkur hófst rétt eftir áramót undir forystu Jóns Guðmundssonar. Þeir sem hafa borið hitann og þungann af vinnunni hingað til eru „öldungarnir í klúbbnum". Þeir hafa svo sannarlega gengið vasklega fram og sýnt að þeir eru rífandi góðir starfskraftar, að því er fram kemur á heimasíðu GG og greint er frá á vef Grindavíkurbæjar.
Allir millivegnir hafa verið teknir niður sem og loftplötur. Framundan er að fletta gólfdúknum af og setja hitalagnir í gólfið, endurnýja allt rafmagn og steypa viðbyggingu (stefnt er að því að hún verði fokheld haustið 2011). Með þessu móti er áætlað að salurinn muni taka um 60-80 manns í sæti og rúmgóðu eldhúsi sem nýtist við veislur, stórar sem smáar.
,,Allt vinnuframlag við framkvæmdirnar er gefið sem er frábært framtak manna. Nokkuð sem er nauðsynlegt á stundum sem þessum og ómetnalegt framlag í okkar starfsemi," segir jafnframt á síðu GG.
Myndin: Barða-húsið sést efst á myndinni sem nú er verið að taka í gegn og verður framtíðar golfskáli GG.