Endurbætt leiðarkerfi strætó: Markvissari þjónsta miðuð að þörfum íbúa
Fimmtudaginn 18 september n.k verður tekið í notkun nýtt og endurbætt leiðarkerfi strætó í Reykjanesbæ sem miðar að því að bæta þjónustu og auka þægindi fyrir farþega í bæjarfélaginu.
Eldra leiðarkerfi var sprungið, bæði í tíma og lengd leiða, enda hefur bærinn stækkað óðfluga síðastliðin ár og er nú orðinn 10 km langur. Nýjasta viðbótin er Vallarheiði, fyrrum varnarliðssvæðið, en þar eru íbúar nú orðnir samtals 1700, og fjölgar ört.
Við gerð nýja leiðarkerfisins var tekið mið af því að auka þjónustu við nemendur og eldri borgara. Áhersla er lögð á að þjóna hverju skólahverfi og taka um leið mið af lykilþjónustu í bæjarfélaginu. Þar má nefna stofnanir s.s. skóla, íþróttahús, sjúkahús, banka, Vatnaveröld, Nesvelli og verslanir.
Sett verður upp miðlæg skiptistöð við Reykjaneshöll þar sem að allir vagnar stoppa á heila tímanum og auðveldar það farþegum að sækja þjónustu í önnur hverfi. Stoppistöðum hefur verið fjölgað og eins hefur ein leið bæst við leiðarkerfið sem samanstendur af: Leið 1-Keflavíkurleið, Leið 2 – Njarðvíkurleið, Leið 3 – Vallarheiði og Leið 3a – Hafnir/Vallarheiði.
Breytingar kerfisins miða að því að gera það markvissara og mæta þannig betur þörfum íbúanna.
Allar stoppistöðvar hafa nú fengið nafn og við þær hefur verið sett upp vandað kort af leiðarkerfi ásamt öllum upplýsingum. Að auki hefur biðskýlum verið fjölgað og merkingar bættar.
Íbúar eru hvattir til þess að ganga vel um biðskýlin og stoppistöðvarnar. Allar góðar ábendingar um strætó má senda inn á íbúavefinn mittreykjanes.is eða á netfangið [email protected].