Endingargott og stílhreint útlit verði á bæjarskilti Suðurnesjabæjar
Málefni er varðar nýtt bæjarskilti Suðurnesjabæjar var tekið fyrir að beiðni B-lista á síðasta fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar. Jafnframt lögð fram gögn og tillögur er varða ný innkomuskilti í sveitarfélagið sem áður hafa verið lögð fram í ráðinu.
B-listi leggur fram eftirfarandi bókun og tillögu varðandi bæjarskilti við sveitarfélagsmörk og við innkomu í byggðarkjarna: Ásýnd og sýnileiki sveitarfélagsins er afar mikilvægur B-listanum.
„Til að bæta ímynd sveitarfélagsins og auka sýnileika þess leggur B-listi til að farið verði í hönnun á bæjarskilti við sveitarfélagsmörk og við innkomu í byggðarkjarnana í Suðurnesjabæ. Skiltunum/hleðslunum skal fylgja nafn og merki sveitarfélagsins ásamt því að tryggja að það verði upplýst. Möguleiki er á að nota steypu líkt og í Ölfusi eða grjóthleðslu líkt og í Grindavík í bakgrunn skiltisins til að tryggja endingargott og stílhreint útlit.“
Bókun framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar:
„Ráðið tekur jákvætt í tillögu B-listann. Samkvæmt þriggja ára fjárfestingaáætlun er gert ráð fyrir að verkefnið, Innkomuskilti við bæjarmörk Suðurnesjabæjar, verði á áætlun 2025. Umhverfissviði falið að uppfæra eldri kostnaðaráætlun verksins og gera ráð fyrir því í fjárfestingaáætlun næsta árs.“