Endaði ökuferðina uppi á grashól
Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af um helgina hafði endað ökuferð sína ofan á grashól þar sem bifreið hans vóg salt og komst hvorki aftur á bak né áfram. Til bifreiðarinnar hafði sést fara í loftköstum upp á grashólinn þar sem hún sat svo föst. Ökumaðurinn var grunaður um ölvunarakstur og reyndist að auki hafa verið sviptur ökuréttindum.
Annar ökumaður, grunaður um fíkniefnaakstur, ók bifreið sinni með neglda framhjólbarða. Fáeinir til viðbótar voru teknir úr umferð, grunaðir um vímuefnaakstur, og reyndist einn þeirra vera sviptur ökuréttindum.
Þessir ökumenn voru allir handteknir og færðir til sýna- og skýrslutöku á löreglustöð.