Ellefu aðilar fengu styrk úr Samfélagssjóði HS Orku
Úthlutað hefur verið úr Samfélagssjóði HS Orku í síðari úthlutun ársins og fengu ellefu góð verkefni styrk úr sjóðnum í þetta skiptið. Opið var fyrir umsóknir frá 1. til 30. september og bárust hartnær fimmtíu umsóknir.
Meðal verkefna sem hljóta styrki eru verkefni knattspyrnudeildar Keflavíkur sem snýr að virkni og vellíðan fyrir flóttafólk og hælisleitendur, fræðsluverkefnið Fróðleiksfúsi hjá Þekkingarsetri Suðurnesja, áframhaldandi þróun verkefnisins Sagnastund á Garðskaga, verkefnið Forvarnir á opnu húsi hjá Félagi slökkviliðsmanna í Grindavík og grænfánaverkefnið Bambahús hjá Reykholtsskóla þar sem íslenskt hugvit og hönnun er nýtt við gerð gróðurhúss fyrir kennsluna við skólann.
Samfélagssjóðurinn styrkir verkefni sem geta haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag, lífsgæði og mannlíf. Styrkir eru veittir til skýrt skilgreindra verkefna eða atburða. Tekið er á móti umsóknum um styrki frá öllum landshlutum en sérstök áhersla er lögð á að styðja verkefni í nágrannabyggðum starfsstöðva fyrirtækisins. Við val á verkefnum er m.a. litið til þeirra heimsmarkmiða um sjálfbæra þróun sem HS Orka hefur valið fyrir starfsemi sína.
Næsta styrkúthlutun úr sjóðnum er í maí 2024 og tekið verður á móti umsóknum í gegnum umsóknarsvæði á vefsíðu HS Orku frá 1. til 30. apríl næstkomandi.
Verkefni sem hljóta styrk úr sjóðnum í október 2023:
- Knattspyrnudeild Keflavíkur – Virkni og vellíðan flóttafólks og hælisleitenda
- Minningarsjóður Ölla – Styrkveitingar Minningarsjóðs Ölla 2024
- Þekkingarsetur Suðurnesja – Fróðleiksfúsi á spjaldtölvur
- Hilmar Bragi Bárðarson – Sagnastund á Garðskaga 2023–2024
- Reykholtsskóli – Bambahús í Grænfánaverkefni
- Elsa Pálsdóttir – Afreksíþróttir öldunga
- Heiðarskóli Reykjanesbæjar – Það er alltaf gaman í stærðfræði
- Verzlunarfélag Árneshrepps – Hornsteinn samfélags
- Blái herinn – Hreinsunarverkefni á Reykjanesi
- PCOS samtök Íslands – Fræðslukvöld PCOS og breytingaskeiðið
- Félag slökkviliðsmanna í Grindavík – Fjörugur föstudagur, forvarnir á opnu húsi