Eldur í ruslafötu við Leifsstöð
Eldur kom upp í ruslatunnu fyrir utan brottför Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar snemma í gærmorgun. Þar hafði flugfarþegi hent logandi vindlingi í ruslatunnu og við það hafi komið upp eldur. Lögreglumenn í eftirliti í flugstöðinni slökktu eldinn með slökkvitæli úr lögreglubifreið. Skemmdir voru óverulegar.
Einn ökumaður var tekinn grunaður um ölvun við akstur í Garðinum í gærdag.
Þá voru tveir ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur í gær, annar á Hringbrautinni í Reykjanesbæ á 90 km/klst. þar sem hámarkshraðinn er 50 km/klst, og hinn á Norðurvöllum í Reykjanesbæ. Sá mældist á 61 km/klst. þar sem hámarkshraðinn er 30 km/klst.
Fyrri ökumaðurinn má búast við 40.000 kr. sekt og 3 refsipunktum. Hinn fær svipaða sekt en gæti einnig átt von á ökuleyfissviptingu í 3 mánuði.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir það að nota ekki bílbelti við akstur í Reykjanesbæ og einn fyrir það að tala í farsíma við akstur.