Eldur í íbúð við Vatnsholt
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað að íbúð í fjölbýlishúsi við Vatnsholt í Keflavík í dag um kl. 16 þar sem tilkynnt var um eld og mikinn reyk í íbúð í húsinu.
Þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn logaði eldur í eldhúsinu en eldurinn logaði við eldavél og viftu yfir henni. Mikill og þykkur reykur var í íbúðinni og sót yfir öllu.
Íbúðin var mannlaus en húsráðendur höfðu verið að heiman í um stundarfjórðung áður en útkall barst til slökkviliðs.
Slökkviliðsmenn voru fljótir að ráða niðurlögum eldsins og síðan var íbúðin reykræst. Tjón er umtalsvert en sterka reykjarlykt lagði frá húsinu og ljóst að allt sem inni í íbúðinni er þarf að þrífa eða endurnýja.
Myndir frá vettvangi brunans í dag.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson