Eldsvoðinn við höfnina: Turnarnir hurfu í reykjarkófi
Eldsvoðinn nú síðdegis við Keflavíkurhöfn, þegar kveikt var í húsnæði saltgeymslunnar við höfnina, varð til þess að íbúðaturnarnir við Pósthússtrætið hurfu um tíma í reykjarkófi. Ekki er ljóst hvort reykur hafi komist þar inn. Ætla má að einhverjir hafi verið með opna glugga en sannkölluð hitabylgja hefur verið í Keflavík í allan dag og hitamælar verið að sýna vel yfir 20 stiga hita.
Slökkvistarf gekk vel en slökkviliðsmenn voru við reykköfun í miklum hita. Reykkafarar töluðu um að mikill hiti væri inni í byggingunni en samkvæmt upplýsingum frá Jóni Guðlaugssyni, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja, var talsvert af plastefnum að brenna og mikill eldsmatur í húsinu.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson