Eldsvoði reyndist gamall Benz
Slökkviliðið í Grindavík var kallað út á áttunda tímanum í gærkvöldi en þá virtist sem að kviknað væri í íbúðarhúsi í Vallarhverfinu í bænum. Fjöldi barna og unglinga ýmist hljóp eða hjólaði að reykskýinu sem steig upp frá byggðinni og fréttamaður Víkurfrétta sem ætlaði að bregða sér í Röstina á leik Grindvíkinga og Snæfells sá reykinn leggja yfir Víkurbrautina og áleiðis að knattspyrnuvellinum. Eitthvað dró þó úr reyknum áður en slökkviliðið kom á staðinn enda alls ekki um eldsvoða að ræða.
Heldur var það svo að gömul Benz bifreið hafði verið sett í gang eftir langan dvala og við það varð til þetta myndalega reykský sem varð til þess að kalla þurfti slökkvilið á vettvang.
Mynd úr safni