Eldsvoði að Íshússtíg 3a í Keflavík
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út skömmu eftir miðnætti að Íshússtíg í Keflavík þar sem eldur hafði komið upp í húsinu númer 3a. Útkall barst til Neyðarlínunnar kl. 00:05. Þegar slökkvilið og lögregla komu á vettvang logaði eldur út um glugga á bakhúsi Íshússtígs 3a. Þar inni höfðu verðið tveir menn, húsráðandi og maður gestkomandi hjá honum. Þeir komust út úr brennandi húsinu. Kona með tvö börn að Íshússtíg 3 þurfti einnig að yfirgefa íbúð sína, sem og íbúar Túngötu 22, en reykur komst inn í þá íbúð.
Húsið sem varð eldi að bráð er gömul bygging sem tengir Íshússtíg 3 við húsið Túngötu 22. Þetta eru gamlar byggingar sem slökkviliðið hefur haft áhyggjur af til margra ára. Eldurinn virðist hafa komið upp við stiga á milli hæða. Eldurinn hafði verið slökktur um kl. 01 í nótt en slökkviliðið vann við að reykræsta og mun örugglega þurfa að vakta húsið fram eftir nóttu, enda leynast glæður í húsinu. Íbúinn að Túngötu 22 ætlaði ekki að vera heima í nótt, enda reykjarlykt í íbúðinni.
Rannsóknardeild lögreglunnar í Keflavík mun fara með rannsókn brunans.
Skoða svipmyndir frá brunastað í nótt - smellið hér!
VF-ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson