Eldsvoði, atvinnumál og fangelsi í Sanderði
29. október
Gert ráð fyrir 200 milljóna neikvæðri rekstrarniðurstöðu.
Endurskoðuð fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2010 var lögð fyrir bæjarráð í gær. Í henni er reiknað með að rekstarniðurstaða bæjarsjóðs verði neikvæð um tæpar 200 milljónir króna. Samþykkt var að vísa henni til umræðu í bæjarstjórn á þriðjudaginn.
Talsverðar breytingar eru gerðar í endurskoðaðri fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar. Meðal annars er reiknað með að tekjur bæjarins lækki um 600 milljónir króna vegna atvinnutekna sem ekki hafa skilað sér eins og gert var ráð fyrir.
Rekstrarkostnaður bæjarsjóðs hækkar um 339 milljónir kr. frá upphaflegri áætlun og afskriftir eru hækkaðar um 215,1 milljónir kr. vegna breytinga á reikningsliðum með leigðar fasteignir. Áætlað er að tekjur ársins verði tæplega 370 milljónum hærri en gert var ráð fyrir upphaflegri áætlun m.a. vegna breytinga á reikningsskilum á langtímahúsaleigu.
Gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs, fyrir afskriftir og fjármagnsliði (ebidta) verði jákvæð um 143,1 milljónir króna. Endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir að fjármagnsliðir verði neikvæðir um 77,8 milljónir kr.
Áætlað er að rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs verði í heild neikvæð um 199,7 milljónir kr. í lok árs.
28. október
Ríkisstjórnin vill gott samstarf við Suðurnesjamenn
„Málefni Suðurnesjamanna eiga ekki að vera rædd með karpi eða í umkenningarleik. Ríkisstjórnin vill að sjálfsögðu eiga gott samstarf við heimamenn um þau verkefni sem eru í undirbúningi,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra á opnum borgarafundi í Stapa í dag sem Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi stóðu að. Heimamenn voru mis ánægðir með svör ráðamanna á fundinum og fundarstjóri sagði í lokin að hann væri hræddur um að sverð yrðu ekki slíðruð heldur munduð.
„Það þarf að huga að ýmsum þáttum á Suðurnesjum, m.a. menntun, lágum meðallaunum og miklu atvinnuleysi fólks á aldrinum 24-29 ára. Það er ljóst að svæðið hefur orðið fyrir áföllum. Herinn fór og Sparisjóðurinn fór yfir um en það er ekki rétt að ríkið hafi staðið í vegi fyrir verkefnum á svæðinu,“ sagði Steingrímur m.a. á fundinum. Hann sagðist m.a. hafa sent meðmælabréf vegna lánaumsókna aðila sem tengjast nýjum verkefnum á svæðinu, svokölluð ástarbréf. Sagði það ekki óalgengt þar sem ríkisvaldið leggur fram gott orð með ákveðnum verkefnum án þess að um ríkisábyrgð væri að ræða. Ráðherra sagði að ríkisvaldið stæði ekki í vegi fyrir framgangi álvers í Helguvík. Það hefði verið samkomulag um það í meirihlutasamningi við gerð ríkisstjórnar.
Steingrímur svaraði spurningum sem lagðar voru fram á fundinum og annarra úr sal. Hann sagði að stigið yrði varlega til jarðar í málefnum Fríhafnarinnar sem margir Suðurnesjamenn hafa áhyggjur af vegna þess að í fjárlögum er gert ráð fyrir því að reksturinn í Leifsstöð skili 1,2 milljarði króna í ríkissjóð. Steingrímur sagði að niðurskurður í málefnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja væri í skoðun og ekki væri ólíklegt að farið yrði hægar í sakirnar þó svo að ekki yrði hjá því komist að skera niður. Hann kom inn á málefni Sparisjóðsins í Keflavík, gagnavers, Keilis á Ásbrú og mörg önnur. Steingrímur sagði góðar fréttir vera í ferðaþjónustu, m.a. hjá flugreksraraðilum og það væri gott fyrir Suðurnesin.
Auk Steingríms flutti Kristján Möller, formaður iðnaðarnefndar ávarp og svaraði spurningum. Hann sagði margar hindranir hafa verið í veginum í uppbyggingu álvers en þær væru allar yfirstíganlegar. Svæðið hefði mikla möguleika í atvinnumálum og margar jákvæðar fréttir væru væntanlegar. „Ekkert annað en aukinn hagvöxtur kemur okkur út úr þessari kreppu, meiri atvinna,“ sagði Kristján.
Allar margar spurningar komu úr sal og frá bæjarstjórum Suðurnesjamanna. Ásmundur Friðiksson, bæjarstjóri í Garði sagðist hafa átt von á betri ræðu frá hinum mikla ræðuskörungi, Steingrími J. „Hann kemur hingað og segir ekki neitt af viti, alveg eins og kelling“. Steingrímur undraðist málflutning Ásmundar og sagði hann ekki skapa störf. Nú væri mikilvægt að slíðra sverðin og vinna saman.
Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja fjölmenntu á fundinn og héldu síðan uppi „búsáhaldastemmningu“ fyrir utan Stapann eftir fundinn með því að berja í „hlandskálar“ af sjúkrahúsinu um leið og fjármálaráðherra gekk út í bíl.
28. október
Fangelsi í Sandgerði?
Bæjaryfirvöld í Sandgerði hafa hafið undirbúning að þátttöku Sandgerðisbæjar í útboði vegna byggingar á nýju fangelsi ríkisins. Bæjarráð samþykkti þetta á fundi sínum í gær.
Í hinu nýja fangelsi er gert ráð fyrir 50 fangelsisrýmum með deild fyrir kvenfanga, samkvæmt því er fram kemur á vef Dómsmálaráðuneytisins. Undirbúningur að þessari framkvæmd hefur staðið yfir í langan tíma en á fundi ríkisstjórnarinnar hinn 30. mars sl. var samþykkt tillaga þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra að hefja þessa framkvæmd í haust.
Ríkiskaup munu sjá um útboðið fyrir hönd ríkissjóðs en miðað er við að bjóðendur byggi húsið og leigi ríkinu, samkvæmt því er fram kemur á vef ráðuneytisins. Fangelsinu er m.a. ætlað að koma í stað Hegningarhússins á Skólavörðustíg og fangelsisins í Kópavogi. Afplánunarrými í fangelsum hér á landi eru nú 149 talsins. Fyrirhugað fangelsi er liður í aðgerðum stjórnvalda til að bæta úr brýnni þörf fyrir fleiri fangelsisrými.
Bæjarráð Sandgerðis hefur falið bæjarstjóra að hefja undirbúning að þátttöku Sandgerðisbæjar í útboði vegna byggingu nýs fangelsis í samráði og samstarfi við fleiri aðila.
28. október
Eldsvoði í Vogum
Eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði í Vogum nú á ellefta tímanum og var slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kallað út. Eldur hafði kviknað milli þilja á gafli hússins og komist í þakið. Unnið var við rafsuðu á hurð gaflsins og hefur neisti komist í einangrun með fyrrgreindum afleiðingum. Talsverður eldur hlaust af og þurftu slökkviliðsmenn að rífa klæðingu af veggnum og rjúfa þakið til að komast að honum. Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins.
28. október
Sandgerðisbær greiðir upp fjögur lán
Sandgerðisbær mun greiða upp lán sem nema rúmlega 463 milljónum króna samþykki bæjarstjórn tillögu bæjarráðs þess efnis. Um er að ræða fjögur lán, það hæsta upp á 252 milljónir króna.
Á fundi bæjarráðs í gær lagði bæjarstjóri fram tillögu um uppgreiðslu þessara lána. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og farið verði að ákvæðum í samþykkt fyrir Velferðarsjóð Sandgerðisbæjar þar sem kveðið er á um að bæjarstjórn geti ráðstafað fé úr sjóðnum. Áður þurfa þó að fara fram tvær umræður í bæjarstjórn. Eftir uppgreiðslu lánanna verður um einn milljarður eftir í sjóðnum.
Sandgerðisbær var eitt þeirra sveitarfélaga sem nýlega fékk bréf frá Eftirlitsnefnd sveitarfélaga vegna fjárhagstöðu þeirra og er gripið til þessara ráðstafana í framhaldi af því.
27. október
Ungmenni villa á sér heimildir
Lögreglan á Suðurnesjum fær nú í auknu mæli tilkynningar frá skemmtistöðum í Reykjanesbæ að ungmenni yngri en 18 ára séu að reyna að komast inn á skemmtistaðina með því að framvísa ökuskírteini eða greiðslukorti annarrar manneskju. Nokkur mál hafa komið inn á borð til lögreglu.
Að villa á sér heimildir með þessum hætti varðar við almenn hegningarlög þar sem refsirammi er sektir eða fangelsi allt að 6 mán.
Lögreglan varir ungmenni eindregið við því að reyna þetta þar sem brot á almennum hegningarlögum getur haft neikvæðar afleiðingar síðar á lífsleiðinni þegar kemur að því að velja sér starf.
Í þessari viku mun lögreglan funda áfram með forsvarsmönnum skemmtistaðanna þar sem farið verður yfir skemmtanahaldið.
26. október
Sveitarfélögin undirbúa yfirtöku á málefnum fatlaðra
Um næstu áramót flytast málefni fatlaðra frá ríki yfir til sveitarfélaga sem þessa dagana undirbúa yfirtöku á þessu viðamikla verkefni. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum ræða hvernig best verði að þessu staðið og virðist almennt vera sammála um að gera Suðurnesin að einu þjónustusvæði.
Í Reykjanesbæ eru 232 einstaklingar sem nýta þjónustu við fatlaða. Þá er ótaldir þeir sem eru á biðlistum. Um er að ræða 97 börn upp að 17 ára aldri og 135 fullorðna.
Alls starfa 48 manns við þjónustuna í 29 stöðugildum, þ.e. þroskaþjálfar, félagsliðar og stuðningsfulltrúar. Kostnaður við þennan málaflokk í Reykjanesbæ nemur um 300 milljónum krónum árlega.
Nánar var fjallað um þetta í Víkurfréttum á fimmtudaginn.
25. október 2010
Huldumaður vill borga hráefniskostnað vegna bananabrauða
Jóhanna Ósk Gunnarsdóttir, 35 ára gamla ofuramman úr Sandgerði, sem bakaði 160 bananabrauð fyrir Fjölskylduhjálp Íslands, hefur fengið boð um það að einstaklingur, sem vill ekki koma fram undir nafni, sé tilbúinn að borga útlagðan kostnað hennar vegna hráefniskaupa hennar í brauðbaksturinn.
Jóhanna Ósk segir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Það var Pressan.is sem fékk tölvupóst frá einstaklingi sem bauðst til að greiða kostnaðinn við baksturinn en Pressan vitnaði um helgina í umfjöllun Víkurfrétta um framtak Jóhönnu Óskar.
Jóhanna Ósk er ekkert alltof viss um það hvort hún eigi að þiggja greiðsluna og segir að hún og móðir sín, Sigurbjörg Eiríksdóttir, hafi sameinast um hráefniskaupin. Jóhanna spyr þó vini sína á Facebook hvort hún eigi að taka við styrknum. Flestir eru á því að hún geri það og noti þá peninginn til að kaupa meira hráefni og baka meira fyrir Fjölskylduhjálpina.
25. október 2010
Sjúkrahús Lava Clinic á Ásbrú verði tilbúð næsta sumar
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur fyrir hönd Seltúns ehf. auglýst eftir verktökum til þátttöku í forvali fyrir verklegar framkvæmdir við innréttingu á byggingu nr. 710 á Ásbrú.
Valdir verða allt að 5 aðilar til þátttöku í lokuðu útboði fyrir framkvæmdirnar. Verkið felst í innréttingu u.þ.b. 3.500 m² sérhæfðs sjúkrahúss með skurðstofum og legudeild og skal lokið eigi síðar en 31. maí 2011.
Í tilkynningu á vef Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar segir að þátttakendur í forvalinu skulu skila umsóknum um þátttöku til Verkís hf. í Ármúla 4, Reykjavík, eigi síðar en þriðjudaginn 2. nóvember 2010, kl. 11:00.