Eldingar á Suðurnesjum
Á síðustu 10 mínútum hafa tvær eldingar lýst upp himininn í Reykjanesbæ og hafa fylgt miklar drunur með. Nokkuð vindasamt hefur verið á Suðurnesjum í kvöld og hafa haglél dunið á rúðum. Samkvæmt veðurspá frá Veðurstofu Íslands er gert ráð fyrir suðvestlægri átt 10-15 m/s, en heldur hægari suðaustanlands. Dregur úr vindi í kvöld og nótt. Bjartviðri suðaustantil, skúrir eða él um landið vestanvert og síðar einnig norðaustanlands. Gengur í norðaustan 10-15 með slyddu og síðar snjókomu um landið norðvestanvert í fyrramálið. Hægt vaxandi norðaustan átt annars staðar og snjó- eða slydduél, en áfram yfirleitt bjart veður á Suðausturlandi. Hiti 0 til 6 stig, mildast suðvestantil.