Elding ruglaði skynjara svo klór fór í vatn
Greint var frá því í Víkurfréttum í gær að klór blandaðist við drykkjarvatn í Reykjanesbæ. Á vef HS Veitna er greint frá því að á mánudag hafi starfsmenn fyrirtækisins þrifið Staupið sem er varatankur, staðsettur fyrir ofan Eyjabyggð. Við þrifin var notuð klórblanda, 15 prósent klór blandaður við vatn. Þrifin voru hluti af undirbúningi fyrr noktun á tankinum en hann verður notaður þegar vatnsstopp verður í næstu viku vegna breytinga á stofnæð fyrir gerð undirganga við Hafnaveg.
Á mánudagsmorgun kom elding sem varð þess valdandi að skynjari í aðal vatnstank við Grænás fraus og stjórnstöð HS Orku í Svartsengi fékk ekki réttar upplýsingar um stöðu sem gerði það að verkum að þrýstingur féll án þess að stjórnstöð yrði þess vör. Starfsmenn HS Veitna hleyptu vatni inn á varatankinn til þrifa í góðri trú um að aðaltankur við Grænás væri fullur eins og skynjari sagði til um. Síðar kom í ljós að skynjari sýndi ekki rétta stöðu og tankurinn var því næst tómur. Við þetta myndaðist sog sem varð til þess að klórblanda úr varatanki komst inn á kerfið. Sýni voru tekin og verða send til frekari rannsókna en frumathugun starfsmanna HS Veitna leiddi í ljós að styrkur var vel innan hættumarka.