Eldgos á Reykjanesskaga kæmi ekki á óvart
Vísindamenn sem voru við rannsóknir á Reykjaneshrygg síðasta sumar rak í rogastans þegar þeir uppgötvuðu gríðarstóra megineldstöð á hryggnum en fræðilega ætti hún ekki að geta verið þar. Er hún líklega sú eina sinnar tegundar í heiminum. Fullyrt er að þetta sé með merkustu uppgötvunum í jarðvísindum í áratugi.
Auk eldfjallsins fundu þeir tvö gömul rekbelti sem stjórnuðu upphleðslu Vestfjarðarkjálka og Snæfellsness. Á meðal þess sem finna mátti á hafsbotninum voru greinileg ummerki eftir borgarísjaka og fornir árfarvegir.
Þetta kom fram í afar fróðlegum fyrirlestri Dr. Ármanns Höskuldssonar, fræðimanns og eldfjallafræðings á Jarðvísindastofnun HÍ, sem hann flutti á fræðslukvöldi í Saltfisksetrinu á fimmtudagskvöldið. Ármann var annar umsjónarmanna leiðangursins, sem kortlagði Reykjaneshrygginn og hafsbotninn umhverfis hann alveg niður að 63. breiddargráðu. Með þessum rannsóknum er hægt að rekja jarðsögu Íslands allt að 26 milljónir ára aftur í tímann. Munu þær einnig auka skilning á því hvernig heiti reiturinn undir landinu og rekbeltin vinna saman.
Megineldstöðin, sem fengið hefur nafnið Njörður, er á stærð við Reykjanes, eða um 50 km í þvermál. Í toppi hennar má greina öskju, eða sigketil sem er um 10 km í þvermál. Núverandi rekás Reykjaneshryggjar liggur í gegnum Njörð. Aðstæður við Njörð eru því svipaðar og í Kröflu, þar sem að megineldstöðin og sigketill hennar er klofin af Kröflusprungusveimnum.
Í máli Ármanns kom fram að unnið er að því að koma öðrum leiðangri á legg þar sem megineldstöðin verður skoðuð nánar. Meðal annars til að komast að því hvort þar finnist háhitasvæði. Til þess þurfa vísindamennirnir að fá afnot af sérstökum rannsóknarkafbáti til að komast niður að eldstöðinni, sem er á um 1500 metra dýpi.
Reykjaneshryggurinn er því um margt stórmerkilegur jarðfræðilega. Einnig Reykjanesið, sem er eini staðurinn á jarðkringlunni þar sem glögglega má sjá úthafshrygg ganga á land.
Í erindi sínu kom Ármann aðeins inn á gossögu Íslands. Fram kom að tvö gos urðu á Reykjanesskaga á 20. öldinni. Ármann sagði það ekki myndu koma á óvart þó þar gysi á næstu árum. Líklegast myndi þá gos byrja í Hengli. Þá segir hann Heklu vera tilbúna og stutt sé í gos í Upptyppingum.
Mynd/elg: Frá fyrirlestri dr. Ármanns Höskuldssonar í Saltfisksetrinu.