Eldgos á næstu tímum eða dögum líklegasta sviðsmyndin
Í dag eru fimm dagar frá upphafi skjálftahrinunnar á Reykjanesi vegna kvikuinnskots á milli Fagradalsfjalls og Keilis, rétt norðan við staðsetningu kvikuinnskotsins sem varð í júlí-ágúst 2022 þegar gaus fimm dögum eftir upphaf þeirrar hrinu.
Skjálftavirkni er tiltölulega lítil miðað við upphaf hrinunnar þar sem gangurinn liggur. Í gærkvöld 8. júlí urðu gikkskjálftar í Kleifarvatni og var stærsti skjálftinn 4,6 að stærð. Nokkuð var um grjóthrun í grennd við Kleifarvatn og Trölladyngju í kjölfar hans. Grjót féll meðal annars á Krísuvíkurveg og Djúpavatnsleið, segir í samantekt Veðurstofu Íslands sem birt var nú í kvöld.
Enn hægist á aflögun á svæðinu
Enn hægist á aflögun á svæðinu skv. GPS mælingum. Nýjustu gögn byggð á gervihnattamyndum frá ICEYE SAR dagana 7-8. júlí sýna enn betur aflögun á svæðinu ofan kvikuinnskotsins. Sér í lagi sýna þær umtalsverða og nýja aflögun á yfirborði sem liggur í norðaustur-suðvestur stefnu rétt suðvestan Keilis. Það gæti verið vísbending um hreyfingu á siggengjum vegna gliðnunar sem kvikuinnskotið veldur.
Kvikugangurinn á milli Litla Hrúts og Litla Keilis
Líkanreikningar sem byggðir eru á þessum gögnum sýna að kvikan liggur enn grynnra en áður, u.þ.b. hálfan kílómetra undir yfirborði. Útreikningarnir sýna að þann 8. júlí var gangurinn ekki að brjóta sér leið til norðaustur eða suðvesturs heldur er, eins og áður var búið að sjást, u.þ.b. 3 km langur og liggur á svæðinu á milli Litla Hrúts og Litla Keilis. Útreikningarnir gefa til kynna að enn streymi kvika í ganginn að neðan.
Þessar mælingar og niðurstöður benda til þess að gangurinn færist nær yfirborði og líklegasta sviðsmyndin sé eldgos á næstu tímum eða dögum, segir á vef Veðurstofu Íslands.
Hér á myndinni sést staðsetning og umfang aflögunar á yfirborði (blá lína) út frá ICEYE bylgjuvíxlmyndum teknum 7.-8. júlí og staðsetning og umfang tölvulíkans af kvikuinnskotinu (rauð lína) sem veldur aflöguninni. Gosopin 2021 og 2022 eru sýnd sem rauðar stjörnur. Hæðarlíkan IslandsDEM og vegir frá Landmælingum Íslands (staðsetning yfirborðssprungu og innskotslíkans ákvörðuð af Michelle M. Parks og Vincent Droin, Veðurstofu Íslands. Mynd: Ásta Rut Hjartardóttir, Háskóla Íslands).