Eldafl byggir fyrir Orkuveitu Reykjavíkur
Vélsmiðjan Eldafl í Njarðvík lauk á dögunum smíðum á einingahúsum fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Húsin verða notuð sem eftirlitshús við virkjunarsvæði Orkuveitunnar á Hellisheiði.
Mikið þykir til húsanna koma enda traust og góð og einföld í uppsetningu að sögn Óskars Guðmundssonar byggingastjóra Eldafls. Bygging húsanna fór aðallega fram fyrir utan smiðju Eldafls og voru síðan flutt í einingum á virkjunarsvæðið við Hellisheiði og sett þar saman á einungis þremur vikum.
„Við erum að breikka okkar vinnusvið og höfum starfað mikið fyrir Orkuveitu Reykjavíkur síðustu ár. Það er verið að þróa þessi einingahús svo að megi gera þau að einbýlishúsum. Hægt er að flytja húsin landshornanna á milli og því mikil hagræðing í byggingum af þessu tagi,“ sagði Óskar í samtali við Víkurfréttir.
Alls vinna ellefu manns hjá Eldafli og vel gæti verið að vélsmiðjan þyrfti að bæta við sig starfsfólki á næstunni þar sem nokkur stór verkefni eru framundan. Meðal annars mun Eldafl sjá um allar lagnir og vatnsstýringu við nýju Húðlækningastöðina í Bláa Lóninu.
Myndin: Verið að flytja einingahúsin frá húsakynnum Eldafls í Njarðvík.