Ekki vitað um ástæður óhappsins í Grindavík
Flutningaskipið Green Snow frá Malta tók niðri á útleið frá Grindavík á áttunda tímanum í kvöld. Um ástæður þessa er ekki vitað en talið er að skipið hafi farið austur úr innsiglingarrennunni. Skipið var á útleið með frosnar síldarafurðir. Skipið er 95 metra langt og um 15 metra breitt.Kl. 19:49 var áhöfn björgunarskipsins Odds V. Gíslasonar í Grindavík sett í viðbragðsstöðu meðan skipverjar á Green Snow könnuðu ástand skipsins. Þar sem ekki varð ljóst hvort einhverjar skemmdir urðu á skipinu bauð loftskeytastöðin í Reykjavík að skipinu yrði fylgt til Reykjavíkur þar sem ástandið skyldi kannað betur. Björgunarskipið Oddur V. Gíslason fylgdi skipinu til Sandgerðis og tók þá björgunarskip Sandgerðis, Hannes Þ. Hafstein, við fylgdinni. Í Faxaflóa kom svo björgunarskip Reykvíkinga, Henry A. Hálfdánarson, og fylgdi skipinu inn til Reykjavíkur.
Björgunarskipið Oddur V. Gíslason kom aftur til hafnar í Grindavík kl 00:20. Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hvenær aðgerðum lauk af hálfu Sandgerðinga og Reykvíkinga.
Björgunarskipið Oddur V. Gíslason kom aftur til hafnar í Grindavík kl 00:20. Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hvenær aðgerðum lauk af hálfu Sandgerðinga og Reykvíkinga.