Fréttir

Ekki verður byggt yfir viðarflísina í Helguvík
Laugardagur 5. ágúst 2017 kl. 08:00

Ekki verður byggt yfir viðarflísina í Helguvík

Bygging yfir viðarflísina við kísilverksmiðju United Silicon er ekki á fjárhagsáætlun samkvæmt Kristleifi Andréssyni, upplýsingafulltrúa United Silicon, en Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar, lýsti yfir áhyggjum af því í síðustu viku að tréflísin í Helguvík væri ekki í húsaskjóli.

„Viðarflísin er náttúrulegt efni og náttúruvæn. Viðarflísin sem hefur farið af stað í roki verður fljótt að frjóum jarðvegi sem hjálpar gróðri að vaxa og dafna. Viðarflís er almennt geymd úti á sama hátt og hér og er Grundartangi gott dæmi um það. Víða á Austurlandi er viðarflísin notuð í beð, göngustíga, hjólastíga og fleiri jákvæða hluti,“ segir Kristleifur.
Til stendur að klæða kolageymslur verksmiðjunnar fyrir veturinn en búið er að fá tilboð í verkið. Geymslunar eru illa farnar eftir óveður síðasta vetrar. „Verktakinn er algerlega á haus þannig að við bíðum bara eftir að hann komist í verkið.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kísilverksmiðja United Silicon hefur stöðvað ljósbogaofn verksmiðjunnar í nokkur skipti á síðustu mánuðum vegna bilana og annars en Kristleifur segir að vel gangi að keyra ofn verksmiðjunnar upp að nýju. „Álagið hefur verið hækkað samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun. Breytingarnar núna voru aðallega á töppunarpallinum, búnaður hans var einfaldaður með öryggi og skilvirkni að leiðarljósi. Fyrsta töppun með endurbættum búnaði lofar góðu með framhaldið. Tímabilin sem ofninn hefur gengið á fullu álagi hafa verið að lengjast og þar með aukin framleiðsla og gæði.“

Framleiðslustoppin hafa sett strik í reikninginn að sögn Kristleifs og haft neikvæð áhrif á fjárstreymi fyrirtækisins. „Þar sem fyrirtækið er nýtt var tekið tillit til þess í samningum og skrykkjótt framleiðsla hefur ekki valdið vandræðum gagnvart kaupendum.“