Ekki verður búið við óbreytt ástand vegarins öllu lengur
- Bæjarstjórn Garðs ályktar um tvöföldun Reykjanesbrautar.
„Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs skorar á Alþingi og samgönguyfirvöld að setja í forgang framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar, frá Fitjum í Reykjanesbæ að Rósaselstorgi í Sveitarfélaginu Garði. Einnig bendir bæjarstjórn á nauðsyn þess að hið fyrsta verði ráðist í framkvæmdir til að tryggja öryggi á gatnamótum á þessari leið.“ Þetta segir í ályktun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs, sem samþykkt var samhljóða á síðasta fundi bæjarstjórnar.
Þá segir í ályktuninni: „Umferðarþungi hefur aukist mjög mikið á þessari leið, bæði vegna mikillar fjölgunar farþega um Keflavíkurflugvöll sem og vegna íbúafjölgunar á svæðinu og aukinna umsvifa á mörgum sviðum. Ekki verður búið við óbreytt ástand vegarins öllu lengur, ekki síst vegna öryggis vegfarenda“.
Ályktun bæjarstjórnar hefur verið send til innanríkisráðherra, Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, þingmanna Suðurkjördæmis og Vegagerðarinnar.