Ekki útilokað að virknin taki sig upp að nýju
Frá miðnætti hafa mælst um tíu smáskjálftar við kvikuganginn norðan við Grindavík. Ekki er útilokað að virknin taki sig upp að nýju eða að kvika nái yfirborði án mikillar skjálftavirkni. Þetta kemur fram í athugasemd jarðvísindamanns á Veðurstofu Íslands.
Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur. Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sagði í viðtali við morgunútvarp Rásar 2 í morgun að búast megi við því að það ástand sem nú varir við Grindavík verði viðvarandi næstu árin. Það geti tekið hlé en svo byrjað aftur. Hann sagði að nú væru komin upp 10-15% af þeirri kviku sem búast megi við. Hegðun síðustu þriggja eldgosa hefur verið sú að mikið magn kviku hafi komið upp á stuttum tíma en svo lognist gosin útaf. Það megi ekki útiloka að eldstöðin geti dottið í sírennslu, svipað því sem gerðist í gosinu í Fagradalsfjalli árið 2021 þegar eldgosið stóð í hálft ár.