Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Ekki trúaður á greiðslugetu United Silicon
Fimmtudagur 27. júlí 2017 kl. 11:46

Ekki trúaður á greiðslugetu United Silicon

-Forseti bæjarstjórnar vill að verksmiðjan loki, nái hún ekki tökum á menguninni

„Við höfum óskað eftir því að United Silicon byggi eitthvað yfir tréflísar sem hafa verið að fjúka hér. Menn hafa talið að þeir þyrftu lengri tíma til þess vegna fjárskorts. Það gerir það að verkum að ég er ekkert mjög trúaður á það að þeir reiði fram milljarð einn, tveir og þrír,“ sagði Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, í tíufréttum RÚV í gærkvöldi, varðandi skuld United Silicon vegna vinnu Íslenskra aðalverka við uppbyggingu kísilversins í Helguvík.

United Silicon ber samkvæmt gerðardómi að greiða Íslenskum aðalverktökum útistandandi skuld upp á milljarð króna innan tíu daga vegna byggingar kísilversins í Helguvík. Starfsemi þar hefur legið niðri í níu daga eftir óhapp sem varð þegar verið var að tappa af fljótandi kísilmálmi af ofni verksmiðjunnar, sem er annað framleiðslustoppið á skömmum tíma og hefur kostað fyrirtækið háar fjárhæðir.

Public deli
Public deli

Kristleifur Andrésson, upplýsingafulltrúi United Silicon, sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að einhvers staðar væru peningar til og að þeir þyrftu að finnast ef þetta færi svona.

Guðbrandur sagðist ítrekað hafa fundið fyrir mengun verksmiðjunnar, en hann hafi bæði talað við fyrirtækið og látið Umhverfisstofnun vita þegar hann hafi orðið var við lyktina frá verksmiðjunni.

„Ég tel að mér beri skylda til þess að gera það því annars getur Umhverfisstofnun ekki virkað sem eftirlitsaðili.“ Guðbrandur vill að verksmiðjan loki, nái hún ekki tökum á menguninni.

„Það er verið að brjóta forsendur starfsleyfis nánast á hverjum degi og sulla yfir íbúana mengun sem átti ekki að vera til og tilheyrir ekki starfsleyfinu.“