„Ekki sopið kálið þótt í ausuna sé komið“
Að Útskálum í Garði má segja að sé risastór minnisvarði um góðærið en þar standa sökklar bygginga sem áttu að hýsa annars vegar safnaðarheimili og hins vegar hótelbyggingu. Samhliða hruninu stöðvuðust framkvæmdir við þessar byggingar og nú er stórt sár í landinu við þennan annars fallega stað sem Útskálar eru.
Í einangrunarplast í sökkli safnaðarheimilisins má nú sjá áletrun sem reyndar hafði ekki verið kláruð þegar þessar myndir voru teknar. Þar segir „Það er ekki sopið kálið þótt í ausuna sé“ og þar vantar orðið „komið“.
Þetta eru orð sem eiga vel við um metnaðarfullt verkefnið að byggja safnaðarheimili og hótel að Útskálum. Þó verkið sé hafið, þá er engin trygging fyrir því að því ljúki.
Haft hefur verið á orði í Garði þar farsælast væri að keyra mold yfir grunnana og sá þar grasi til að sýna svæðinu meiri virðingu en því er gerð í dag.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson