„Ekki slegið af við uppbyggingu innviða“
Tillaga að fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga fyrir árin 2016 til 2019, ásamt greinargerð bæjarstjóra og tillögu að gjaldskrá sveitarfélagsins 2016 var lögð fyrir bæjarstjórn Voga í gær.
Heildartekjur samstæðunnar í Vogum eru áætlaðar 953 m.kr., sem skiptast þannig: Skatttekjur: 537 m.kr., framlög jöfnunarsjóðs : 280 m.kr. og aðrar tekjur: 100 m.kr.
Heildargjöld samstæðunnar án fjármagnsliða eru áætluð 906 m.kr, sem skiptast þannig: Laun og launatengd gjöld: 551 m.kr. Annar rekstrarkostnaður: 311 m.kr. og afskriftir: 44 m.kr. Fjármunatekjur og fjármunagjöld verða 47 m.kr.
Sjóðstreymisyfirlit sveitarfélagsins fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 81 m.kr., en að handbært fé frá rekstri alls verði 77 m.kr. Fjárfestingar nettó eru ráðgerðar 110 m.kr. Áætlunin gerir ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 76 m.kr.
Á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga í gær var fjárhagsáætlunin samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum. Bæjarstjórn samþykkti tillögu að gjaldskrá 2016, samhljóða með sjö atkvæðuðm.
Bæjarstjórn samþykkir að miða við að útsvarshlutfall fyrir árið 2016 verði hámarksútsvar, þ.e. 14,48% af útsvarsstofni, að viðbættri hækkun sem kveðið verður á um í lögum um tekjustofna sveitarfélaga á grundvelli samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um endurmat á yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Gengið er út frá að lagabreyting þessa efnis verði afgreidd fyrir lok haustþings. Þetta var samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.
Fulltrúar E-listans leggja fram svohljóðandi bókun:
„Nýsamþykkt er metnaðarfull fjárhagsáætlun þar sem, þrátt fyrir þröngan fjárhag, er ekki slegið af við uppbyggingu innviða sveitarfélagsins. Áfram er haldið við endurgerð gatna, og langt er síðan jafn vel hefur verið í lagt í viðhald fasteigna sveitarfélagsins.
Á næsta ári mun reyna áfram á forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins að halda starfsemi innan heimilda eins og þeir hafa gert á líðandi ári, og mun hér eftir sem hingað til verða virkt eftirlit með því að allur rekstur verði innan heimilda.
Mikil vinna hefur farið í fjárhagsáætlunargerðina og hefur bæjarráð ásamt bæjarstjóra borið hitann og þungann af þeirri vinnu. Bæjarráð hefur verið samstíga við þessa vinnu og viljum við í E-listanum þakka fulltrúa D-lista og áheyrnarfulltrúa L-lista í bæjarráði fyrir afar gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016“.