Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Ekki sjálfgefið að ég sé í þessu hlutverki“
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Fimmtudagur 8. maí 2014 kl. 11:04

„Ekki sjálfgefið að ég sé í þessu hlutverki“

- segir Árni Sigfússon bæjarstjóri um niðurstöður skoðanakönnunar.

„Ég tek þessar niðurstöður mjög alvarlega og tel að þessi könnun sé að sýna stöðu á þeim tímapunkti sem hún er tekin. Það er líka athyglisvert að það eru öll framboðin að koma að manni. Ég hef áhyggjur af því að það gæti orðið flókið að vinna úr því ef þetta verður niðurstaðan í lok kosninga,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, um niðurstöður Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar fyr­ir Morg­un­blaðið, í samtali við Víkurfréttir.

Samkvæmt niðurstöðum Talnakönnunar, sem gerði skoðanakönnun fyrir Reykjanesbæ, og birt er á forsíðu Víkurfrétta í dag, vilja 59,6% Árna sem bæjarstjóra. „Það er svolítið sérstakt að menn virðast ekki tengja saman þann flokk sem ég stend fyrir og persónufylgið. Það er þörf á því að menn sjái þá tengingu. Það er ekki sjálfgefið að ég sé þá í þessu hlutverki ef niðurstaða kosninganna verður eins og niðurstaða könnunar Morgunblaðsins,“ segir Árni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Spurður um mögulegar ástæður útkomu skoðunarkönnunarinnar segist Árni hafa fundið fyrir miklu róti í samfélaginu að undanförnu. „Það er óþol; menn eru að bíða eftir að atvinnuverkefni fari í gang. Eru ósáttir við að þau séu ekki öll komin. Það er reyndar fjölmargt komið sem ég hef verið að benda á á undanförnum vikum.“ Einnig segir hann eðlilegt, þegar það eru sex framboð í svona litlu samfélagi, þar sem 22 frambjóðendur eru í hverju framboði, að auðvelt sé að fylgið tætist í sundur. „Hver frambjóðandi er með marga ættingja. Öll framboðin virðast samkvæmt þessari könnun ná inn manni og það er ekkert víst á hvaða forsendum það er. Þetta eru bara hópar fólks. Það á eftir að skýrast á næstu vikum,“ segir Árni.

Spurður um hvort flokkurinn muni breyta eitthvað áherslum í aðdraganda kosninganna í ljósi niðurstöðu könnunar Morgunblaðsins segir Árni: „Aðalatriðið er að það er verk að vinna og auðvitað leitt að menn séu ekki að sjá það sem við teljum að sé gott að gerast hjá okkur. Það er mikilvægt að menn standi saman um framhaldið.“ Flokkurinn hafi verið að vinna af mikilli einlægni í þágu bæjarbúa síðasta kjörtímabil; lagt sig fram við að bæta umhverfið, bæta málefni aldraðra, málefni fatlaðra, skólakerfið og styrkja það. „Núna eru það atvinnumálin sem eru að fara á flug. Við höldum bara okkar striki. Ég trúi því að það sé það sem skilar okkur sterkari stöðu á leiðarenda,“ segir Árni að endingu.