Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekki sannleikanum samkvæmt
Þriðjudagur 14. september 2010 kl. 10:52

Ekki sannleikanum samkvæmt

-segir fráfarandi samgönguráðherra um fullyrðingar þess efnis að hann hafi falið ráðuneytisstjóra sínum að hefja undirbúning að gerð sértækra laga um Helguvíkurhöfn.



Kristján Möller, fráfarandi samgönguráðherra, segir það ekki sannleikanum samkvæmt að hann hafi falið ráðuneytisstjóra sínum að hefja undirbúning að gerð sértækra laga um Helguvíkurhöfn þannig að ríkið gæti komið að framkvæmdunum þar.
Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, hélt því fram á síðasta bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ að hann og Árni Sigfússon hefðu átt fund með Kristjáni sem við það tækifæri hafi falið ráðuneytisstjóra þetta verkefni. Böðvar sagði að þrátt fyrir eftirgangsmuni hefðu aldrei fengist nein viðbrögð frá ráðherra eftir umræddan fund.
Kristján Möller skrifar grein á vf.is í dag þar sem hann svarar því sem hann kallar „ótrúlega umræðu að frumkvæði Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ og Böðvars Jónssonar, bæjarfulltrúa“.  Kristján segir Árna og Böðvar eiga að líta sér nær „í leit að sökudólgum hvað varðar alvarlega fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar,“ eins og hann orðar það í greininni.


Böðvar Jónsson kom inn á þessi mál á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í síðustu viku. Sagði hann sjálfsagt að rifja það upp þegar hafinn var undirbúningur að álveri í Helguvík.
Þá hafi verið hér önnur ríkistjórn, ríkistjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Yfirlýsingar þáverandi ráðherra, bæði samgöngu- og fjármála hafi verið sambærilegar gagnvart Reykjanesbæ eins og öðrum svæðum á landinu, þ.e.a.s. að ef að verið væri að fara í stórvægilegar framkvæmdir, eins og álver eða sambærilegar verksmiðjur, þá myndi ekki standa á ríkinu að koma að framkvæmdum við hafnarmannvirki.

„Þetta var sagt við okkur, þetta var sagt við menn í Þorlákshöfn, í Vestmannaeyjum og víðar þar sem menn voru að sækja á ríkið að byggja stórskipahafnir. Þar var þetta ávallt svarið, þó það kæmi ekki sérstaklega fram skriflega,“ sagði Böðvar á bæjarstjórnarfundinum.

Þá vék Böðvar máli sínu að samskiptum við Kristján Möller, þáverandi samgönguráðherra sem hann sagði hafi sýnt lítinn áhuga.
„Við höfum átt viðræður við síðasta samgönguráðherra, Kristján Möller. Við höfum sent honum erindi, við höfum átt með honum fundi. Hann hafði reyndar aldrei fyrir því að koma hingað og skoða þær framkvæmdir sem voru í gangi í Helguvík. Sá ekki ástæðu til þess að koma og sjá næst-umfangsmestu framkvæmdir í hafnargerð á landinu. En fann sér tíma til að koma hingað á Suðurnes til þess að tala yfir sveitarstjórnarmönnum ef hann þurfti að setja einhver sérstök málefni fram. Á sömu stundum var honum yfirleitt boðið að koma og skoða þær framkvæmdir sem voru í gangi í Helguvík og ræða um þær en hann sinnti því í engu,“ sagði Böðvar.

Því næst skýrði Böðvar frá fundi sem hann og bæjarstjóri áttu með þáverandi samgönguráðherra. Þar hafi þeir skýrt þau sjónarmið sín að eðlilegt væri að ríkið kæmi að framvæmdum í Helguvík með nákvæmlega sama hætti og ríkið hefur komið að öllum öðrum framkvæmdum við hafnargerð, þar sem verið væri að reisa mannvirki á borð við álver. Á fundinum hafi verið vísað til þess að lögum hefði verið breytt á árinu 2003. Eftir það kæmi ríkið ekki sjálfkrafa að framkvæmdum við hafnargerð. „Þá var á það bent að þegar gerðir hefðu verið fjárfestingarsamingar við álver, t.d. á austfjörðum, þá hefði verið tekið tillit til þess að ríkið þyrfti að koma að framkvæmdum við hafnargerð. Það hefði ekki verið gert í Helguvík og þess vegna væri eðlilegt að það yrði gert með öðrum hætti, t.d. með setningu sérlaga, sambærilegum þeim sem sett voru þegar Landeyjarhöfnin var byggð,“ sagði Böðvar og fullyrti að samgönguráðherra hefði á fundinum falið ráðneytisstjóra það verkefni.
„Þrátt fyrir að ganga á eftir því, þrátt fyrir bréfaskrif þar sem spurt var um hvernig því verkefni liði þá kom ekkert fram, engin svör, engin viðbrögð af hálfu ráðherrans, enginn áhugi á að koma að verkefnum í Helguvík,“ sagði Böðvar.

„Alltaf minnast þessir tveir menn á loforð sem þeir eiga að hafa fengið frá ríkinu. Nú veit ég ekki hvað fór á milli forystumanna sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnum fyrri ára og sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ en það hljóta allir að sjá að ég get ekki uppfyllt loforð sem hvorki er að finna í samgönguáætlun né fjárlögum undanfarinna ára. Eins skilst mér að því hafi verið haldið fram að ég hafi lofað að fela ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins að hefja undirbúning að gerð sértækra laga um Helgavíkurhöfn. Slíkt er ekki sannleikanum samkvæmt,“ segir Kristján Möller m.a. í grein sinni á vf.is í dag. Árni hefur svarað Kristjáni með grein sem má lesa á tengli hér að neðan.

Sjá grein Kristjáns Möller hér

Svar við grein Kristjáns frá Árna Sigfússyni bæjarstjóra Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024