Ekki pláss fyrir gæsluvarðhaldsfanga
Beiðni Lögreglunnar í Keflavík um pláss fyrir gæsluvarðhaldsfanga var synjað af Fangelsismálastofnun í gær af þeirri einföldu ástæðu að fangelsin eru yfirfull. Mun þetta vera í fyrsta sinn í að minnsta kosti tvo áratugi sem slíkt gerist, að því er segir í frétt RUV í gær og er haft eftir deildarstjóra hjá stofnuninni að ekkert útlit sé fyrir batnandi ástand.
Lögreglan í Keflavík óskaði eftir vistun fyrir þrjá fanga sem handteknir voru um helgina, grunaðir um innbrot í Vogum. Um var að ræða tvo karlmenn og eina konu. Þau dvelja nú í fangaklefum lögreglunnar í Keflavík..
Við leit í bifreið innbrotsþjófanna fundust munir sem ætla má að sé þýfi úr innbrotum í Grindavík og Keflavík. Fólkið hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, bæði hér á Suðurensjum og annars staðar á landinu.
Mynd: Lögreglustöðin í Keflavík.