Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 7. desember 1998 kl. 08:24

EKKI NÆGJANLEGT FRAMBOÐ AF MENNTUÐU FÓLKI

Um 30% vinnuveitenda á Suðurnesjum segja að ekki sé nægjanlegt framboð af menntuðu vinnuafli á svæðinu. Þetta eru niðurstöður í fyrirtækjakönnun sem Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar í samvinnu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja lét gera og kynnt var á blaðamannafundi í fyrradag. Í könnuninni var safnað upplýsingum um menntun vinnuafls á Suðurnesjum og hugsanlegar framtíðarhorfur á þörfum atvinnulífsins fyrir menntað vinnuafl. Úrtakið í könnuninni voru öll fyrirtæki á Suðurnesjum. Þátttaka var vonum framar eða um 70%. Þessi könnun var fyrsti hluti verkefnisins „Reykjanes 2003“ en það er tilraun til að skoða og meta atvinnuástand næstu ára og fyrirsjáanlegar helstu breytingar á atvinnuþáttum. Skoða helstu breytur og þætti eins og skóla- og menntamála, skipulags- og byggingarmál, atvinnuþróun, ímynd svæðisins, þjónustu sveitarfélaga og fleira. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að fjölgun á stöðugildum frá 1993 til 1998 var um 24% þrátt fyrir mikla fækkun hjá Varnarliðinu og einnig í fiskvinnslu. Samkvæmt áætlun þeirra fyrirtækja sem starfandi eru 1998 verður um 20% fjölgun starfa frá 1998 til 2003. Ef tekin er áætluð fjölgun frá 1998 til 2003 og skipt eftir menntun þá mun störfum sem krefjast iðn- eða stúdentsprófs fjölga um 52% en spurn eftir fólki sem hefur aðeins grunnskólapróf minnka um tæp 11%. Störfum sem krefjast háskólaprófs eða meistaragráðu mun fjölga um 32%. Í könnuninni kemur fram að um 50% iðnfyrirtækja telja að ekki sé nægjanlegt framboð á menntuðu vinnuafli á Suðurnesjum. Einnig segja niðurstöður könnunarinnar að um 51% fyrirtækja á Suðurnesjum séu þjónustufyrirtæki. Á blaðamannafundinum kom fram að meðal þátta í verkefninu „Reykjanes 2003“ verður gerð skoðanakönnunar á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi um hug fólks til Suðurnesja, þ.e. ímynd svæðisins verður könnuð en hún hefur oft verið talin slök. Fram kom í máli fundarmanna að atvinnuleysi var aðeins 1,6% í nóvember en 2,2% fyrstu ellefu mánuði árins. Búferlaflutingar frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins halda áfram þrátt fyrir ýmsar aðgerðir heimamanna og munu líklega hafa talsverð áhrif hér í framtíðinni. Auk viðunandi atvinnuástands má gera ráð fyrir einhverri íbúafjölgun þó hún hafi ekki verið teljandi undanfarin ár.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024