Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Ekki miklar líkur á eldgosi en staðan getur breyst hratt
Föstudagur 5. mars 2021 kl. 20:29

Ekki miklar líkur á eldgosi en staðan getur breyst hratt

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Orkuveitu Reykjavíkur, Kaust háskóla, Uppsala háskóla, Embætti landlæknis, Sóttvarnalæknir, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR.

Á fundinum var farið yfir mælingar og gögn sem hafa borist síðasta sólarhringinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líkt og í tilkynningu frá vísindaráði í gær er það mat vísindamanna að nýjustu gögn gefi ekki vísbendingar um að kvika sé að færast hratt nær yfirborði. Meðan þetta ástand varir eru ekki miklar líkur á eldgosi, en gera verður ráð fyrir þeim möguleika að staðan geti breyst hratt.

Það er sameiginlegt mat vísindaráðs, að ef til goss kemur, benda öll fyrirliggjandi gögn til þess að það verði á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Þetta er í samræmi við þær sviðsmyndir sem þegar hafa verið birtar í tilkynningum vísindaráðs. Spennuáhrif frá umbrotasvæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis skýra að öllum líkindum jarðskjálfta sem orðið hafa í Svartsengi og í grennd við Trölladyngju undanfarna daga, enda hefur engin aflögun mælst sem tengja má því að kvika sé þar á leið til yfirborðs. Því er ekki ástæða til að ætla að eldgos séu yfirvofandi á þessum stöðum nú, né annarstaðar á Reykjanesskaga utan umbrotasvæðisins við Fagradalsfjall og Keili.

Nánar um virknina og úrvinnslu nýjustu gagna

Jarðskjálftavirkni og kvikuhreyfingar halda áfram. Mesta skjálftavirknin eftir miðnætti er bundin við Fagradalsfjalli og hefur færst aðeins í NA, miðað við virkni í gær. Líkanreikningur sýnir að skjálftavirkni vestur af Fagradalsfjalli og við Þorbjörn er vegna spennubreytinga sem kvikugangurinn veldur á stóru svæði allt í kring. Sömuleiðis er virkni við Trölladyngju tengd spennubreytingum frá kvikuganginum.

Enginn órói hefur mælst líkt og mældist fyrir um tveimur sólarhringum síðan. Sá órói benti til þess að kvika væri á hreyfingu á því svæði þar sem mesta skjálftavirknin hefur verið. Þar er líklega um að ræða svokallaðan kvikugang sem er að myndast, sem mögulega getur brotið sér leið alla leið til yfirborðs.

Farið var yfir nánari túlkun á þeim gervihnattamyndum sem bárust í gær, sem og nýjustu GPS mælingar, sem sýna áframhaldandi færslur á svæðinu. Útbúin voru nokkur líkön byggð á gervihnattamyndunum og nýjustu GPS mælingum til átta sig betur á umfangi og staðsetningu kvikugangsins. Kvikugangurinn liggur nær lóðrétt í jarðskorpunni og áætlað er að hann nái upp á um 2 km dýpi í jarðskorpunni. Mesta opnun jarðskorpunnar er þar fyrir neðan og nær niður á um 5 km dýpi. Miðað við niðurstöður líkanreikninganna þykir hvað áreiðanlegast að gera ráð fyrir að ef til goss kæmi, þá gæti sprunga opnast einhvers staðar á því svæði sem virkast hefur verið undanfarið, sem liggur frá miðju Fagradalsfjalli að Keili.

Líkön gefa til kynna að um væri að ræða meðalstórt gos um 0.3 km3, sem er sambærilegt að umfangi og Arnarseturshraun á Reykjanesskaga. Slíkt gos mynd að öllum líkindum ekki ógna byggð.

Kvikugangurinn liggur mjög grunnt í jarðskorpunni. Líklegustu líkönin benda til þess að gangurinn sé 5-6 km langur og að 1.5-2 km geti verið niður á efra borð hans. Því er full ástæða áfram til að bregðast við þegar óróapúlsar mælast, líkt og um daginn, sem geta verið vísbendingar um upphaf goss.

Þær sviðsmyndir sem eru líklegastar:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
  • Skjálfti af stærða allt að 6.5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
  • Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall:
  • Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
  • Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð

Einnig var farið yfir stöðuna á uppsetningu nýrra mælitækja. Sérfræðingar Veðurstofunnar, Háskólans og annarra samstarfsaðila hafa unnið hörðum höndum síðustu daga að fjölgun mælitækja á svæðinu til að geta gefið skýrari mynd af framvindu atburðarrásarinnar á Reykjanesskaga. Síritandi GPS stöðvum hefur þegar verið fjölgað í vikunni og unnið verður áfram að uppsetningu fleiri slíkra stöðva um helgina ásamt uppsetningu á jarðskjálftamælum. Öll mælitækin eru svo tengd við vöktunarkerfi Veðurstofunnar.

Vísindaráð mun hittast aftur stuttlega á morgun til að ræða nýjustu gögn og mælingar.