Ekki mælt með að fólk fari í göngu að gosstöðvum
Mælingar keimlíkar því sem sáust dagana fyrir eldgosið sem hóst 19. mars sl.
Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi í dag vegna jarðskjálftahrinu og landbreytinga við Fagradalsfjall. Frá því að hrinan hófst þann 21. desember hafa rúmlega 18 þúsund skjálftar mælst, þar af nokkrir 4,0 eða stærri að stærð. Síðasta sólarhringinn hefur aðeins dregið úr skjálftavirkninni og hafa stærstu skjálftarnir orðið utan við það svæði sem talið er að kvikan sé að safnast á. Niðurstöður landmælinga með GPS tækjum og gervitunglamyndum benda til þess að kvika sé ekki á ferðinni utan við það svæði sem gangurinn er á.
Niðurstöður mælinga undanfarna daga eru keimlíkar því sem sáust dagana fyrir eldgosið sem hóst 19. mars síðastliðinn. Því er mikilvægt nú að sýna aðgæslu í nágrenni við gosstöðvarnar. Ef eldgos hefst, þá er tímasetning og staðsetning óviss og því er ekki mælt með því að fólk fari í göngu að gosstöðvum við Geldingadali á meðan að þessi hrina er í gangi.
Auk þess er varað við því að vegna jarðskjálfta er aukin hætta á grjóthruni í fólkvanginum. Fólki er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum og forðast svæði þar sem grjót getur hrunið.