Ekki lokið við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar
- á þessu kjörtímabili
Suðurnesjamenn þurfa enn að bíða í nokkur ár eftir því að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar. Í fjögurra ára samgönguáætlun Ólafar Nordal innanríkisráðherra, sem lögð var fyrir Alþingi fyrr í mánuðinum, kemur fram að ekkert fjármagn verður sett í tvöföldun Reykjanesbrautarinnar á næstu tveimur árum. Með aukinni umferð um Reykjanesbrautina vegna fjölgunar ferðamanna höfðu margir bundið vonir við að ráðist yrði í viðeigandi framkvæmdir. Árið 2017 verða gerð mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg en að öðru leyti verður ekkert unnið að tvöföldun brautarinnar út þetta kjörtímabil.
Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi situr í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Hann segir mikilvægt að klára tvöföldun á Reykjanesbraut sem allra fyrst og í raun ætti verkið að vera lengra á veg komið. „Það þarf að klára tvöföldunina sem er bæði hagsmunamál fyrir íbúa Suðurnesjanna og Hafnarfjarðar. Það eru svosem jákvæð tíðindi að það er búið að flýta þeirri framkvæmd að gera mislægu gatnamótin við Krýsuvík,“ segir Vilhjálmur.
Ekki nægileg áhersla á brautina frá sveitarfélögum
Þingmaðurinn segir að margir samvinnandi þættir þurfti til þess að flýta framkvæmdum sem þessum og þar nefnir hann til sögunnar að sveitafélögin á Suðurnesjum þurfi að auka samvinnu.
„Uppbyggingin á Keflavíkurflugvelli tengist þessu einnig því það verða ennþá fleiri sem fara um brautina með fjölgun ferðamanna. Kadeco, Isavia og þrjú sveitarfélög koma að því og þau þurfa að vinna saman. Með því að koma með sameiginleg markmið og skapa þrýsting á þá sem semja samgönguáætlun, er best hægt að ná árangri. Það er mikilvægt að upplýsa fólk um hvar hætturnar eru og hvar þörfin er mest. Sveitarfélögin á svæðinu hafa helst verið að tala um hafnirnar sínar í samgöngumálum og ekki lagt nógu mikla áherslu á vegina. Núna er Grindavík farið að tala um Grindavíkur- og Suðurstrandaveginn en mér hefur ekki þótt mikill þrýstingur frá Reykjanesbæ varðandi Reykjanesbrautina, fókusinn hefur verið á að fá fjármagn í hafnirnar.“
Vilhjálmur keyrir sjálfur Reykjanesbrautina á hverjum degi og Grindavíkurveginn þar sem allt að 4000 bílar fara um dag hvern að sumri til. „Það eru holur á brautinni og það vita allir hversu hættulegur Grindavíkurvegurinn getur verið. Það er kominn tími til að fókusinn fari á að auka umferðaröryggi og fólk þarf að átta sig á því að uppbygging á Keflavíkurflugvelli leiðir af sér efnahagsleg verðmæti fyrir þjóðina alla sem ríkið mun svo græða á. Það kostar að græða.“